Lífsstíll sem við höfum kosið okkur

Rúna og Hettie stilla sér upp eftir mynd af þeim …
Rúna og Hettie stilla sér upp eftir mynd af þeim sem tekin var árið 1986 fyrir framan gömlu Boekie Woekie sem var tveir sinnum tveir.

Bókabúðin Boekie Woekie í Amsterdam er ekkert venjuleg, hún er gallerí, listaverk, sjálfstæður skúlptúr sem breytist stöðugt. Þar eru listrænir viðburðir og í dag ætlar Arna Valsdóttir að vera þar með músíkskúlptúr, hún ætlar að syngja sig inn í búðina. Rúna Þorkelsdóttir er einn af þremur eigendum Boekie Woekie.

Bókakötturinn Tickety er aðalpersónan hér. Hann er hluti af búðinni, enda býr hann hér að staðaldri ásamt gullfiskinum Pissi,“ segir Rúna Þorkelsdóttir myndlistarkona og ein þeirra þriggja listamanna sem eiga og reka bókabúðina og galleríið Boekie Woekie í Amsterdam. Hin tvö eru hjónin Henriëtte van Egten og Jan Voss.

„Hér var mikill músagangur og mýsnar svo heimaríkar að þær komu fram þegar ró var komin á og tóku nokkur dansspor. Þessar mýs voru aðgangsharðar, þær voru búnar að borða nokkur girnileg listaverk í bakherberginu, brauðverk eftir mig og hnetuverk eftir Jan. Mýsnar átu þau innan frá. Við gripum til þess ráðs að gerast fósturforeldrar læðunnar Tickety sem vantaði heimili á þessum tíma og það hefur ekki mús sést síðan hún flutti í búðina. Hún er hinn besti bókabúðarköttur, krassar ekkert í bækurnar og klórar hvergi. Hún elskar japönsku. Þegar hún heyrir japönsku kemur hún fram og lætur klóra sér og klappa og veltir sér um og vekur gleði viðskiptavina. Hún er í mörgum myndaalbúmum út um allan heim þessi læða.“

Sumir hræddir við nándina

Rúna hefur búið í Amsterdam í rúma þrjá áratugi, hún flutti upphaflega þangað þegar hún hóf nám í Rietveld-akademíunni, en hún var líka ástfangin af hollenskum manni.

„Við ákváðum ásamt nokkrum öðrum listamönnum að gera eitthvað sjálf til að koma okkar verkum á framfæri. Við vorum öll að fást við bækur og stofnuðum því bókabúðina Boekie Woekie árið 1986 í pínulitlu húsnæði sem var tveir sinnum tveir metrar. Við vorum sex einstaklingar sem stóðum að þessu, tveir Íslendingar, ég og Pétur Magnússon, þrír Hollendingar og einn Þjóðverji. En rýmið var svo lítið að þegar við vorum öll saman þarna inni var lítið pláss fyrir fleiri. Þetta var mikil nánd og viðskiptavinir voru sumir hræddir við að koma inn.“

Þetta er okkar listaver

„Við vorum fyrst einvörðungu með okkar eigin bækur, um hundrað titla, og einn veggur var gallerí. Ári síðar gengu þrjú úr samstarfinu og við þrjú sem urðum eftir höfum haldið áfram að reka þessa búð og galleríið allar götur síðan. Í fimmtán ár fórum við á bókamessuna í Frankfurt til að kynna bækurnar okkar. Við fórum líka að taka inn bækur annarra listamanna og árið 1991 fluttum við hingað í Berenstraat, í stærra húsnæði,“ segir Rúna og bætir við að þá hafi þau gert sér grein fyrir því að Boekie Woekie var meira en bókabúð og gallerí.

„Þetta er okkar listaverk. Við hugsum þetta sem skúlptúr sem breytist stöðugt. Á þessum tíma byrjuðum við að vinna með Dieter Roth og tókum þátt í sýningum með honum. Við erum með útgáfu, höldum stöðugt úti sýningum og kynnum aðra listamenn.“

Bókverk er myndlist

Hlutverk bókabúðarinnar hefur því þróast mikið á þessum þremur áratugum.

„Frá þessum hundrað titlum í byrjun erum við núna með um átta þúsund titla af bókverkum. Bókverk er myndlist í sjálfu sér, slík bók er ekki um myndlist eða listamann, heldur er bókin verk í sjálfu sér. Við erum líka með uppákomur hér í búðinni; tónlist, ljóðalestur, gjörninga og ýmislegt fleira. Íslenskir hljómlistarmenn hafa oft spilað hjá okkur og í gegnum árin hafa komið hingað íslenskir stúdentar í listnámi við Rietveld, sumir hafa orðið vinir okkar og unnið hérna. Það er mikil Íslandstenging í búðinni, hér er sérstök íslenskudeild í bókunum, til dæmis er Kristján Guðmundsson með sérhillu og við erum með bækur eftir Sigurð Guðmundsson og marga fleiri íslenska listamenn, bæði eldri og yngri.“

Sýning á Íslandi á næsta ári

Rúna segir mjög skemmtilegt að lifa og hrærast í þessum heimi.

„Við höfum líka farið með búðina sem breytilegan skúlptúr á sýningar. Á Listahátíð árið 2006 vorum við til dæmis með bókabúðina inni á Listasafni Reykjavíkur í þrjá mánuði.“

Og margt spennandi er á döfinni.

„Arna Valsdóttir frá Akureyri ætlar að vera með músíkskúlptúr hjá okkur í dag, hún ætlar að syngja sig inn í búðina. Og við erum að undirbúa afmælissýningu því búðin verður 30 ára í janúar. Nýlistasafnið á Íslandi hefur boðið okkur að halda sýningu af því tilefni sem verður opnuð 9. janúar. Svo eru stöðugar útgáfur. Við prentum okkar eigin bókverk og kortin heima á kvöldin og á nóttunni eftir vinnu. Þetta er sífelld vinna, en þetta er lífsstíll sem við höfum kosið okkur.“

Þau eiga öll hús á Hjalteyri

Eðli málsins samkvæmt fá þau nokkuð af söfnurum til sín í búðina en líka alls konar fólk af götunni.

„Stundum segir fólk þegar það kemur hér inn: „Hvar erum við eiginlega stödd?“ Af því að þetta er eins og að ganga inn í heim. Og þá þurfum við að leiða viðkomandi í gegnum það og þá skapast oft skemmtileg samtöl,“ segir Rúna sem er fráskilin en hún á einn son sem býr á Íslandi með fjölskyldu og fyrir vikið kemur hún oft til Íslands.

„Við þrjú sem eigum bókabúðina erum öll með sterka tengingu við Ísland. Jan og Henriëtte eiga hús á Hjalteyri sem þau keyptu árið 1979 og þau hafa verið þar á sumrin allar götur síðan. Ég á líka hús á Hjalteyri og ég á fjölskyldu í Reykjavík sem ég heimsæki oft.“

Vefsíða búðarinnar: www.boekiewoekie.com
Gullfiskurinn Pissi er með fasta búsetu í Boekie Woekie.
Gullfiskurinn Pissi er með fasta búsetu í Boekie Woekie.
Brynjar Helgason sem listamaðurinn Manet og Jan Voss sem málarinn …
Brynjar Helgason sem listamaðurinn Manet og Jan Voss sem málarinn Van Gogh.
Læðan Tickety er úrvals bókaköttur, krassar ekki í bækurnar og …
Læðan Tickety er úrvals bókaköttur, krassar ekki í bækurnar og klórar ekki.
Kortin sem þau gera sjálf hanga utan við búðina.
Kortin sem þau gera sjálf hanga utan við búðina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert