Reyndu að brjótast inn í bíla

Það var fjölmennt í fangaklefum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Það var fjölmennt í fangaklefum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rétt eftir miðnætti voru tveir menn handteknir nálægt Skeifunni en árvökull borgari hafði séð þá ganga milli bifreiða og reyna fara inn í sumar. Ágæt lýsing var gefin af mönnunum sem fundust eftir smá leit.

Þeir reyndur báðir vel þekktir hjá lögreglu, báðir í talsvert annarlegu ástandi og virtust búnir að fara inn í einhverjar bifreiðar en á þeim fundust ýmsir smámunir sem þeir gátu ekki gert grein fyrir. Einnig fundust fíkniefni í málinu sem tengjast þeim. Vegna ástands þeirra þurfti að vista þá í fangaklefa þar til hægt verður að taka af þeim skýrslu.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um konu að stela buxum í verslun í Skeifunni.

Undir áhrifum allra þeirra fíkniefna sem lögregla gat prófað fyrir

Skömmu seinna var tilkynnt um annað búðarhnupl en þá var maður staðinn að verki í verslun í Kópavogi. 

Eigandi bifhjóls sem hafði verið stolið sá til þess í umferðinni í nótt og fylgdi ökumanni þess eftir í Kópavoginum.

Hann hringdi í lögreglu eftir að hafa stöðvað för mannsins sem ætla má að sé sá sem hjólið tók nóttina áður. Sá handtekni reyndist vera undir áhrifum allra þeirra fíkniefna sem lögregla gat prófað fyrir. Hann var einnig réttindalaus og svo kom í ljós að hann var á reynslulausn. Hann var vistaður í fangaklefa á meðan mál hans er í vinnslu.

Góðkunningi á stolnum hjólastól

Um eitt í nótt var tilkynnt um ölvaðan mann í hjólastól á Laugaveginum. Þar reyndist vera góðkunningi lögreglu í hjólastól sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi skammt frá. Stólnum var  skilað en sökum ástands og hegðunar mannsins var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa. Hann var mjög ölvaður og æstur.

Ekki velkomnir annars staðar

Tveir menn komu á lögreglustöð um miðnætti og óskuðu þess að fá gistingu í fangaklefa. Þeir voru heimilislausir og sögðust ekki vera velkomnir annars staðar. Þeim veitt skjól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert