Sýningar Þjóðleikhússins falla niður

Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Allar sýningar Þjóðleikhússins munu falla niður verði af verkfalli SFR á fimmtudaginn. Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri segir að mögulega verði hægt að æfa eitthvað í leikhúsinu en ekki sýna.

„Það eru fjölmargir starfsmenn sem myndu leggja niður störf. Verkfallið hefur bæði áhrif á starfsfólk í miðasölu en einnig starfsmenn við sviðið og á sviði,“ segir Ari í samtali við mbl.is. Að sögn þjóðleikhússtjóra eru það m.a. starfsfólk búningadeildar, leikmunadeildar og sviðsmenn sem leggja niður störf. „Við getum mögulega æft eitthvað en ekki sýnt á meðan verkfalli stendur.“

Samkvæmt heimasíðu leikhússins er um þrjár sýningar að ræða, tvær á stóra sviðinu og ein í Kassanum. 

Ari segir þetta áhyggjuefni í tvennum skilningi. „Við verðum auðvitað af tekjum en svo mun þetta líka valda óþægindum fyrir gesti okkar sem missa af sýningu eða þurfa að færa sig. Þetta getur líka truflað framleiðslu sýninga.“

Hann segir að allt verði gert til þess að bæta fólki upp óþægindin. „Við munum bjóða því að koma og sjá aðra sýningu eða eiga inni hjá okkur miða. Svo verður líka boðið upp á endurgreiðslu.“

Boðaðar verkfallsaðgerðir SFR hefjast á miðnætti á fimmtudag. Næst verður fundað í deilunni á morgun. Að sögn Ara verður ekki gripið til aðgerða fyrr en verkfall skellur á. „Við erum auðvitað eins og allir að vona að það verði samið.“

Ari er ekki með nákvæma tölu um hversu margir hjá leikhúsinu leggja niður störf verði af verkfallinu en segir það einhverjir tugir. Hann segir að það verði ekki gengið í störf þeirra. „Mér finnst mikilvægt að menn virði nú réttinn og að maður sé ekki að reyni ekki að ögra þeim sem eru í verkfalli með því að ganga í störf þeirra.“

Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri.
Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert