Vilja hjálpa öldruðum útigangsmanni

Herbert er 73 ára gamall.
Herbert er 73 ára gamall. Af Facebook síðunni

„Ég veit voðalega lítið um hann ég tengist honum þannig að hann situr daglega fyrir utan húsið mitt,“ segir Birna María Styff, en hún og vinkona hennar Maríanna Ástmarsdóttir hafa hafið söfnun til styrktar útigangsmanninum Herberti Marinóssyni sem hefur verið á götunni í átta ár. Birna spjallar reglulega við Herbert þar sem hann situr á bekk á Hverfisgötunni og segir hún mikilvægt að hann fái hjálp. Maríanna stofnaði Facebook hópinn „Hjálpum Herberti“ fyrir nokkrum dögum eftir að hafa heyrt Birnu tala um Herbert.

Þarf fyrst og fremst húsnæði

Að sögn Birnu vantar Herbert ýmislegt en fyrst og fremst húsnæði. „Hann vantar góð föt fyrir veturinn sem er ekkert svo erfitt að redda. Svo þarf hann að komast til fótaaðgerðarfræðings og í nudd því hann er með allskonar eymsli. Við erum búin að redda því en hann vantar fyrst og fremst húsnæði. Hann er náttúrulega orðinn þreyttur á því að vera á götunni, orðinn 73 ára gamall,“ segir Birna.

Hún segist ekki vita mikið um forsögu Herberts, fyrir utan það að hann hefur verið á götunni síðan hann missti heimili sitt fyrir átta árum. „Þetta er rosalega góður maður og mjög kurteis. Hann býður alltaf góðan daginn og situr þarna brosandi. En hann er ekkert grey og vill ekki láta tala við sig þannig. Við viljum bara hjálpa honum.“

Skammarlegt að fólk búi á götunni á Íslandi

Að sögn Birnu lét hún hann vita af söfnuninni sama dag og hún hófst. „Honum fannst það hálf skrítið, en var samt ánægður þegar ég sagði að við værum komnar með fótanudd og værum að klára söfnun fyrir fótaaðgerðarfræðing. Við ætlum fyrst og fremst að passa uppá fæturna en hann vill náttúrulega bara þak yfir höfuð sitt. Hann fær nudd á fimmtudaginn. Svo þetta er bara byrjunin.“

Birna segir það skammarlegt að fólk búi á götunni á Íslandi. „Mér finnst það skammarlegt fyrir ríkisstjórnina að þau horfi upp á fólkið okkar sofa úti. Við myndum ekki koma svona fram við börn, börn fá ekki að búa á götunum, aðrir ættu ekki að þurfa þess frekar.“ Hún segir að það þurfi að hjálpa þessu fólki miklu meira en gert er. „Maður á að hjálpa öllum á götunni. Það er óþægilegt að vera hálfgerður forrréttindaplebbi, labbandi framhjá fólki sem sefur á bekkjum.“

Birna segist hafa gefið Herberti heitan mat fyrir nokkrum dögum. „Ég hef aldrei séð hann þakklátari. Hann er augljóslega ekki vanur heitum mat. Ég gaf honum líka brauð og honum fannst alveg rosalegt að fá heilt brauð. Hann tók það strax í tvennt og rétti mér helminginn. Ég afþakkaði það og sagði honum að þetta brauð væri komið í hans hendur.“

HÉR má nálgast upplýsingar um söfnunina.

Mynd úr safni
Mynd úr safni Ljósmynd/Jakob Fannar Sigurðsson
Birna María sér Herbert næstum því daglega.
Birna María sér Herbert næstum því daglega. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert