Skipverjar báts sem strandaði við Eyri við Álftanes í morgun eru komnir í land og verið er að tryggja bátinn á strandstað þar sem fjarar hratt undan honum. Reyna á að ná honum á flot á næsta flóði sem verður um kvöldmatarleytið, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan hálfníu þegar tilkynning barst um að bátur væri strandaður við Eyri við Álftanes.
Nokkur viðbúnaður var í upphafi en fljótlega kom í ljós að engin hætta steðjaði að skipverjunum tveimur er voru um borð.