Tók á móti barni á ströndinni

Barnið að koma í heiminn og Díana að aðstoða konuna.
Barnið að koma í heiminn og Díana að aðstoða konuna. Ljósmynd/Kaja Kristine Espenes

Íslensk kona tók á móti sýrlensku barni á strönd á eyjunni Lesbos á Grikklandi í gær. Móðirin var nýkomin að landi eftir að hafa ferðast með báti frá Sýrlandi.

Þegar ljóst var að læknir næði ekki til þeirra í tæka tíð rifjaði hún upp það sem hún lærði í sauðburðinum fyrir mörgum árum og fæðingu sinna eigin barna. Eftir fæðinguna var bundið um naflastrenginn með sótthreinsaðri skóreim.

Það var Díana Karlsdóttir sem tók á móti barninu á ströndinni en hún dvelur á eyjunni ásamt vinkonu sinni Ástu Hafþórsdóttur þessa vikuna. Þær eru sjálfboðaliðar samtakanna Dropi í hafið og búa í Noregi.

Ásta segir ástandið á eyjunni hræðilegt. Þangað koma mörg þúsund flóttamenn á hverjum sólarhring, bæði að nóttu sem degi. Flestir koma blautir og hraktir í land og reyna sjálfboðaliðarnir að færa þeim þurr föt, teppi, vökva og mat en sumt af þessu er af skornum skammti.

Tjöld sem Sameinuðu þjóðirnar hafa reist rýma aðeins lítill hluta af flóttafólkinu og gista því margir undir berum himni. Blaðamaður mbl.is náði tali af Ástu í morgun þegar þær Díana voru á ferð um Lesbos.

Lágu undir karlmönnum alla leiðina

„Í gær erum við á leið í pásu eftir að hafa verið að allan daginn og tekið á móti nokkrum bátum. Þá keyrum við að stað þar sem er mjög bratt niður en þar hafði bátur komið inn,“ segir Ásta. Yfirleitt er reynt að stýra bátunum að landi þar sem auðvelt er að taka á móti fólkinu en þarna hafði bátur komið inn við mjög erfiðar aðstæður.

Ástu og Díönu varð fljótt ljóst að fólkið sem komið hafði að landi þurfi á læknisaðstoð að halda. Enginn læknir var með í för og hröðuðu þær sér strax til fólksins.

„Ég fer strax að sinna fjölskyldu sem eru með tvær unglingsstúlkur sem eru í miklu áfalli eftir að hafa legið undir fullorðum karlmönnum alla leiðina. Þær gátu ekki hreyft sig og voru í miklu áfalli,“ segir Ásta en ekki var hægt að ná sambandi við stúlkurnar. Sat hún hjá þeim á meðan þær biðu eftir lækni.

„It's a boy“

Aðeins um tíu metrum frá Ástu var Díana með konu sem var komin að því að fæða barn. Díana ræddi við lækni í gegnum síma og reyndi eftir bestu getu að greina honum frá staðsetningu þeirra. Þær hafa aftur á móti ekki dvalið lengi á eyjunni og því reyndist erfitt að segja lækninum nákvæmlega hvar þær voru. Læknirinn keyrði framhjá þeim og barnið kom í heiminn.

„Díana tekur því á móti barninu og reynir að rifja upp þegar hún tók á móti lömbum og eftir fæðingu sinna eigin barna,“ segir Ásta. Barnið fæddist og hálftíma síðar kom læknirinn. Í millitíðinni kom norsk kona sem skar á naflastrenginn og sótthreinsaði skóreim til að binda á hann. Þrátt fyrir að fæðingin hafi farið fram á ströndinni heilsast móður og barni vel en þau voru flutt á sjúkrahús eftir að læknirinn kom á staðinn.

Konan var frá Sýrlandi og skildi ekki ensku. Þegar barnið fæddist var það þegar í stað vafið í teppi og reyndu konurnar að segja henni að hún hefði fætt dreng. Það skildi hún aftur á móti ekki og vissi því ekki kynið fyrr en hún kom á sjúkrahúsið. Drengurinn fékk nafnið Poseidon, eða Póseidon, eftir sjávarguð Grikkja. 

Koma yfirleitt blaut í land

„Eins og flestir vita er stríður straumur flóttamanna frá Sýrlandi. Hingað til Lesbos koma nokkur þúsund manns á hverjum degi og nóttu. Mikið hefur verið fjallað um þetta í fjölmiðlum í Noregi þar sem við búum báðar,“ segir Ásta.

Hópur sem nefndist Dropinn í hafið hefur á síðustu tveimur árum orðið að hálfgerðum sjálfboðaliðasamtökum. Þátttakendur fara til Grikklands til að aðstoða fólk sem kemur að landi með bátum og starfa vinkonurnar fyrir samtökin.

„Við reynum eins og við getum að hjálpa þeim með þurr föt en þau koma yfirleitt blaut í land. Þá reynum við líka að útvega teppi, mat og vatn,“ segir Ásta en þær hafa dvalið á eyjunni í þrjá daga.

„Maður dettur strax inn í rútínuna þó að það sé mikil óreiða hér. Hér eru aðrir sjálfboðaliðahópar frá Hollandi, Danmörku, Spáni. Einhvernveginn gengur þetta upp, allir eru með app sem er hægt að nota til að senda upplýsingar á milli. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett upp tjaldbúðir við strandlengjuna og við reynum eftir bestu getu að klæða þau og hjálpa þeim áfram.“

Faðma sjálfboðaliðana grátandi af gleði

„Aðstæður eru hræðilegar, algjörlega hræðilegar. Maður skammast sín niður í tær fyrir að fólk þurfi að ganga í gegnum þetta, koma hingað í leit að friði, burt frá stríði. Þau eru ofsalega glöð, gráta mörg og fleygja sér um hálsinn á manni. Svo þurfa þau að hírast í tjöldum þar sem er ekkert, á moldargólfi,“ útskýrir Ásta.

„Einhverjir útvega vatn, það er lítil af mat og eiginlega engin teppi. Það er að verða kalt á nóttunni, það er ekki nóg pláss í tjöldunum svo fólk þarf að sofa á götunni. Tjöldin dekka kannski um tvö þúsund manns en hingað koma fleiri þúsund manns á hverjum degi.“

Greinilegt er að fólkið leggur mikið á sig til að komast frá Sýrlandi. Vinkonurnar hafa rætt við fólkið og komust meðal annars að því að nýlega fæddist barn á ströndinni í Sýrlandi. Móðirin og nýfædda barnið fóru strax í bát og með honum yfir til Grikklands.

Hírast í skóginum í tíu daga

„Fólkið myndi ekki fara þessa ferð nema það væri enginn önnur leið. Fólkið hefur verið að lýsa því fyrir manni að það er búið að hírast í skóginum í Tyrklandi í tíu daga áður en það kemst í bát og lifir það á kexi á meðan. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hvað fólk er að flýja. “ segir Ásta.

Vinkonurnar fara aftur heim til Noregs á sunnudag en Ásta er þegar farin að huga að því að koma aftur.

„Það verður mikil þörf þegar það fer að kólna. Ég mæli með því, ef fólk hefur tök á  og getur tekið sér vikufrí, að koma hingað og aðstoða. Það er rosalega gott fólk hérna, það er gott að vinna með því. Þetta er mjög gefandi þó að þetta sé mjög erfitt,“ segir hún.

Litli drengurinn sem fæddist á strönd á eyjunni Lesbos í …
Litli drengurinn sem fæddist á strönd á eyjunni Lesbos í Grikklandi í gær. Ljósmynd/Kaja Kristine Espenes
Þarna var fæðingin nýlega yfirstaðin. Sjálfboðaliðar aðstoða konuna.
Þarna var fæðingin nýlega yfirstaðin. Sjálfboðaliðar aðstoða konuna. AFP
Sjúkraliðar og sjálfboðaliðar bera konuna. Þarna var ekki langt liðið …
Sjúkraliðar og sjálfboðaliðar bera konuna. Þarna var ekki langt liðið frá fæðingunni. AFP
Unga konan sem ól barn á ströndinni.
Unga konan sem ól barn á ströndinni. AFP
Flóttamenn kom að landi á eyjunni Lesbos í Grikklandi.
Flóttamenn kom að landi á eyjunni Lesbos í Grikklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert