Ekki hægt að sinna öllum málum

mbl.is/Styrmir Kári

Mikið álag var á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og ekki hægt að sinna öllum málum sem komu á hennar borð. Lögreglan vonar að fólk sínu þessu skilning en þar á meðal eru fíkniefnamál, hávaði í heimahúsum og ölvað fólk sem angar aðra.

Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að forgangsröðun hafi verið beitt og alvarlegri málum sinnt. Eitthvað var af tilkynningum um læti, hávaða eða aðra óeðlilega hegðun þurftu því að vera afskiptalaus.

„Vonum við að fólk sýni því skilning. Dæmi um slík mál voru hávaði í heimahúsi, ölvað fólk með læti á götum úti og gestir skemmtistaða með læti og neytandi ólöglegra fíkniefna fyrir framan aðra gesti eins og ekkert væri eðlilegra. Lögregla vill minna á ekki eru allir sammála að lögleiða eigi fíkniefni, þau eru ólögleg og á því verður tekið lögum samkvæmt,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Meðal þess sem kom til kasta lögreglunnar var maður sem reiddist í apóteki í Kópavogi síðdegis í gær en svo virðist sem fyrrum kunningi hafi svikið út lyfin hans. Ekkert hægt að gera að svo stöddu en maðurinn róaðist og málið verður skoðað.

Tilkynnt um deilur þar sem hnífur var á lofti

Á sama tíma var tilkynnt um ofurölvi mann nálægt lögreglustöðinni við Hverfisgötu sem endaði í fangaklefa sökum ástands en um var að ræða heimilislausan mann sem hefur ítrekað óskað gistingar hjá lögreglu.

Skömmu fyrir sex var tilkynnt um deilur milli starfsmanna í fyrirtæki í Árbænum en í tilkynningunni kom fram að hnífi hefði verið veifað. Hnífurinn reyndist vera dúkahnífur sem var notaður á staðnum. Enginn slasaðist og málið róaðist og leystist starfsmannanna á milli en fólki var brugðið við athæfið. Lögreglan reyndi að aðstoða við að leysa málið en enginn vildi kæra í málinu.

Á sama tíma kom maður á lögreglustöðina og bað um að fá að gista í fangaklefa. Sá hafði náð að vera edrú í nokkurn tíma en var nýfallinn. Sagðist ekki treysta sér til að vera á götunni og að hann hefði engan annan samastað. Lögregla mun reyna að aðstoða viðkomandi að komast í meðferð en hann sagðist vilja það framar öllu.

Brutu rúður í Breiðholtinu

Rúmlega 21 var tilkynnt um tvo víðáttuölvaða og ógnandi menn á veitingastað í Hafnarfirði. Þeir voru búnir að vera með almenn leiðindi og voru ógnandi í fasi. Starfsmönnum gekk ekkert að fá þá í burtu en þeir hlýddu fyrirmælum lögreglu eftir stutt samtal og fóru.

Um miðnætti var tilkynnt um rúðubrot í Breiðholti og sáust þrjú ungmenna hlaupa á brott af vettvangi. Seinna um nóttina voru nokkur ungmenni tekinn í félagsmiðstöð í Breiðholti og þar búin að brjóta fleiri rúður. Einn var vistaður í fangaklefa vegna málsins en hann var talinn gerandi. Ekki var hægt að útiloka að búið væri að taka muni ófrjálsri hendi og málið skoðað nánar.

Gat hvergi verið nema í fangaklefa

Lögreglan handtók mann á heimili sínu um tvöleytið í nótt en sökum ölvunar og óláta gat hann ekki verið heima hjá sér og ekki gat hann farið annað. Hann endaði í fangaklefa þar sem hann fékk að sofa úr sér. Viðkomandi hafði verið edrú í 10 ár en var nýfallinn og það reyndist honum erfitt, segir lögregla.

Fyrir utan ofangreind mál var talsvert um minniháttar ölvunar- og lyfjamál þar sem fólk var aðstoðað. Í flestum tilvikum var fólki veitt aðstoð við að koma sér heim en sumir voru lítillega slasaðir og fengu aðhlynningu ásamt aðstoð við að komast til síns heima. Einhverjir af þeim áttu hvergi heima og fóru í Gistiskýlið, segir meðal annars í skýrslu lögreglunnar.

Mikið álag er á lögreglunni og nær hún ekki að …
Mikið álag er á lögreglunni og nær hún ekki að anna öllum þeim verkefnum sem hún ætti að sinna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert