Engar tafir á millilandaflugi

Flug er á áætlun á Keflavíkurflugvelli
Flug er á áætlun á Keflavíkurflugvelli mbl.is/RAX

Engar tafir eru á millilandaflugi á Keflavíkurflugvelli að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, sem er staddur út á flugvelli ásamt fleiri starfsmönnum Isavia. Þau hafa boðið fólki upp á vatn og súkkulaði í röðinni og upplýst um hvers vegna afgreiðslan gangi hægar fyrir sig. 

Að sögn Guðna eru bæði starfsmenn af skrifstofu Isavia og þjónustuliðar að störfum og hafa farþegar tekið þessu vel og sýnt mikinn skilning en lengst hefur fólk þurft að bíða í 15-20 mínútur í vegabréfaeftirliti. 

Þrír starfsmenn vegabréfaeftirlits eru í SFR og því í verkfalli en að sögn Guðna eru tveir lögreglumenn við afgreiðslu farþegar á leið inn í landið en einn lögreglumaður er við eftirlit hjá farþegum sem eru á leið út úr landi. Um er að ræða flug til Bandaríkjanna og Bretlands.

Góð dreifing var á komu flugvéla frá Norður-Ameríku í morgun og því mynduðust ekki langar raðir og þær flugvélar sem eiga að vera farnar til Evrópu eru farnar og þær sem munu fara héðan á áttunda tímanum eru á áætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert