„Samhjálpin var einstök“

Frá minningarathöfn sem var haldin á Flateyri í kjölfar hamfaranna.
Frá minningarathöfn sem var haldin á Flateyri í kjölfar hamfaranna. mbl.is/RAX

„Við vorum sofandi þegar húsið bókstaflega sprakk í tætlur,“ sagði Eiríkur Finnur Greipsson, íbúi á Flateyri, í samtali við Morgunblaðið eftir að snjóflóð féll á bæinn aðfaranótt 26. október árið 1995. Eiríkur minnist atburðanna í samtali við mbl.is í dag en hann segir að samhjálpin á svæðinu hafi verið einstök.

Í dag eru 20 ár liðin frá því þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð kl. 4.07 að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegi. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast á staðinn vegna veðurs. Tuttugu fórust í snjóflóðinu. 

Fjölskyldan komst lífs af

„Við vorum sofandi þegar húsið bókstaflega sprakk í tætlur, ég get ekki lýst því öðruvísi. Allt fylltist af snjó, en við hjónin náðum að búa til öndunarrými í kringum okkur. Svo gátum við ekkert gert nema beðið. Óvissan um afdrif strákanna okkar kvaldi okkur mest. Við töluðum saman, fórum með Faðirvorið og reyndum að styrkja hvort anna“ sagði Eiríkur í samtali við Morgunblaðið 27. október fyrir 20 árum. Drengirnir reyndust óhultir, en sá eldri komst út úr brakinu og hljóp fáklæddur eftir hjálp.

„Það [húsið] fór í eldspýtnabrak svona að mestu leyti. En við björguðumst öll, konan mín og tveir yngri synir okkar. Það var alveg einstök mildi að það sá ekki á okkur eftir þetta. Við vorum ótrúlega heppin,“ segir Eiríkur þegar hann rifjar upp atvikið í dag.

Enginn maður samur eftir slíka reynslu

Hann bendir á að ekki hafi allir verið jafn heppnir, en hann vonar að þeir sem misstu sína nánustu hafi náð að byggja sig upp á ný. „En það verður enginn maður samur eftir slíka reynslu. Það vita engir nema þeir sem lenda í því að missa sína nánustu - ég tala nú ekki börnin sín - hvað það er hræðilegur atburður. Það getur ekki nokkur maður lifað í sátt við það en menn reyna að lifa með því.“

Eiríkur bendir á að samfélagið fyrir vestan hafi hins vegar náð að sýna sínar bestu hliðar í kjölfar flóðanna. „Samhjálpin var einstök þarna á svæðinu. Á bæði Súðavík og Flateyri komu einstaklingar og félög að uppbyggingunni eftir snjóflóðin með myndarlegum hætti. Svo auðvitað landsmenn allir, ríkisvald og sveitarfélög. Þetta var alveg ótrúlegur tími. Ég held að það sé einstakt hvað við nutum mikillar velvildar og hjálpar í kjölfarið.“

Lofsvert hvað hafi áunnist

Eiríkur bætir við að í hans huga sé magnað hvað búið sé að gera frá því flóðin féllu á Vestfjörðum og ollu bæði eyðileggingu og manntjóni. „Mér finnst stórkostlegt til þess að hugsa að það skuli hafa verið gripið til jafn víðtækra ráðstafana og uppbyggingar varna á þeim svæðum sem verst eru stödd, þ.e. varðandi ofanflóðahættu. Mér finnst Veðurstofan og stjórnvöld hafa staðið sig vel í því verki,“ segir Eiríkur.

Það sé hins vegar dapurlegt að menn hafi þurft að upplifa slíkan harmleik til að menn hafi loks gripið til nauðsynlegra aðgerða. 

„En það er engu að síður lofsvert það sem búið er að gera og hefur áunnist,“ tekur Eiríkur fram.

Samverustundir á Flateyri og í Neskirkju

Í kvöld klukkan 18 hefst samverustund í Flateyrarkirkju og munu félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónlistarmaðurinn KK, barnakór og fleiri koma fram af þessu tilefni.

Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur í Flateyrarsókn í Holtsprestakalli, segir í samtali við mbl.is, að dagskráin sé vegleg og á von á að þetta verði góð stund í kirkjunni. Að henni lokinni verður boðið upp á kjötsúpu í Félagsbæ á Flateyri. „Við vonumst til þess að allir fái sér súpu með okkur, það er svo mikils virði að geta komið saman og átt samverstund,“ segir Fjölnir. 

Eiríkur, sem flutti til Reykjavíkur árið 2013, kveðst því miður ekki geta tekið þátt í þeim viðburðum sem hafa verið skipulagðir í tengslum við tímamótin fyrir vestan. Hann bendir hins vegar á að Önfirðingafélagi hafi staðið fyrir samverustundum í Neskirkju í Reykjavík og verður samkoma haldin þar kl. 20 í kvöld.

„Við vonumst til að fá sem flesta þangað til þess að umvefja hvert annað,“ segir Eiríkur að lokum.

Flóðið féll aðfararnótt 26. október 1995 og olli mikilli eyðileggingu. …
Flóðið féll aðfararnótt 26. október 1995 og olli mikilli eyðileggingu. Tuttugu fórust. mbl.is/RAX
Eiríkur Finnur Greipsson.
Eiríkur Finnur Greipsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert