Skipað í stöðuna á næstu dögum

Mjög hefur dregist að skipa í embættið.
Mjög hefur dregist að skipa í embættið. mbl.is/Golli

Það styttist í að skipað verður í embætti héraðssaksóknara sem tekur til starfa frá og með 1. janúar 2016, en samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er stefnt að því að skipa í embættið fyrir næstu mánaðamót.

Samkvæmt auglýsingu innanríkisráðuneytisins, þegar embættið var auglýst laust til umsóknar, átti að skipa í stöðuna frá og með 1. september síðastliðinn. Er því ljóst að nokkuð hefur dregist að skipa í stöðuna.

Þegar haft var samband við innanríkisráðuneytið í dag fengust þær upplýsingar að skipað yrði í embætti héraðssaksóknara fyrir næstu mánaðamót. Mun það því gerast á allra næstu dögum.

Ein kona og einn karl skipuð

Alls sóttu fimm um embætti héraðssaksóknara, þ.e. Björn Þorvaldsson saksóknari, Bryndís Björk Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri, Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari, Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri og Ólafur Hauksson saksóknari.

Um stöðu varahéraðssaksóknara sóttu einnig fimm, þ.e. Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari, Björn Þorvaldsson saksóknari, Daði Kristjánsson saksóknari, Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari og Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur innanríkisráðherra hitt alla umsækjendur um embætti héraðssaksóknara á fundi. Eins hefur mbl.is heimildir fyrir því að einn karl og ein kona verði skipuð í embættin tvö.

Í auglýsingu innanríkisráðuneytisins, sem gerði upphaflega ráð fyrir skipan í embætti héraðssaksóknara hinn 1. september síðastliðinn, kemur einnig fram að héraðssaksóknari eigi að vinna að undirbúningi að því að embættið taki til starfa við upphaf næsta árs. Er þar einnig gert ráð fyrir því að skipað verði í embætti varahéraðssaksóknara á sama tíma, eða frá og með 1. janúar 2016.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert