Heiða heillaði Vilhjálm Bretaprins og forseta Kína

Leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, lengst til vinstri á myndinni, var í sviðsljósinu í heimsókn forseta Kína í Lancaster House í London á dögunum þegar forsetinn, Xi Jinping, var í opinberri heimsókn í Bretlandi.

Þar tóku Vilhjálmur Bretaprins og Kate Middleton hertogaynja á móti forsetanum og konu hans, Peng Liyuan. Þau voru leidd um húsið og fengu m.a. að sjá Heiðu og mótleikara hennar flytja eitt atriði, uppáklædd, úr sjónvarpsþáttunum Poldark. „Ég var beðin um að leika atriði með mótleikara mínum úr Poldark vegna þess að ITV-Global dreifir efninu um heiminn og við vorum hluti af kynningu stöðvarinnar fyrir kínverska forsetann,“ segir Heiða Rún í stuttu samtali við Morgunblaðið, en hún fer með eitt aðalhlutverkanna í Poldark, leikur þar Elizabeth, fyrrverandi unnustu liðsforingjans Ross Poldark.

„Þau voru öll indæl, tóku í höndina á okkur og spjölluðu aðeins,“ segir Heiða Rún um forsetahjónin kínversku, Vilhjálm prins og hertogaynjuna af Cambridge. Heiða Rún, sem í Bretlandi notar listamannsnafnið Heida Reed, hefur í nógu að snúast þessa dagana. Tökur standa yfir í Bretlandi á annarri þáttaröðinni af Poldark en að sögn Heiðu er verið að gera 10 þætti til viðbótar.

Þættirnir, sem framleiddir eru fyrir BBC1 og PBS, hafa slegið í gegn í Bretlandi og víðar um heim. RÚV hefur núna fyrstu þáttaröðina til sýninga en áttundi og síðasti þátturinn fer í loftið næstkomandi sunnudagskvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert