Sjókisinn Særós laumaðist um borð

Það væsir ekki um Særósu á Gnúpi en hún verður …
Það væsir ekki um Særósu á Gnúpi en hún verður þó eflaust fegin því að fá fast land undir loppu. Ljósmynd/ Bergþór Gunnlaugsson

Þeir ráku upp stór augu, sjómennirnir á frystitogaranum Gnúpi GK-011, þegar þeir sáu að um borð var loðinn laumufarþegi. Ævintýrakötturinn hefur fengið nafnið Særós en hún hefur nú verið á hafi úti í tæpa tvo mánuði.

„Maður hefur heyrt um svona en þetta gerist ofboðslega sjaldan. Það eru ekki margir staðir sem kettir geta komist um borð í skip en hún hefur líklega farið um borð eftir landgöngubrúnni,“ segir Sigurjón Veigar Þórðarson, vélfræðingur um borð í Gnúp. „Skipið er rosalega stutt í landi og það eru alltaf menn á ferðinni svo það er rosalega ólíklegt að svona gerist.“

Sigurjón segir fugla reglulega fjúka um borð í skip og að hann hafi einu sinni heyrt af því að minnkur hafi fundist eftir að lagt var úr höfn. „Þetta er eiginlega einstakt einstakt. Það man enginn eftir því að hafa heyrt um svona laumufarþega.“

Sigurjón segir að Særós hafi verið orðin nokkuð þvæld þegar hún fannst en að hinsvegar sé hún nú öll að braggast og fái eins mikinn fisk og hún geti í sig látið. Sigurjón segir vel hafa fiskast og því sé ekkert út á það að setja þó Særós éti sinn hásetahlut og svo virðist sem hún sé hreinlega orðin ein af áhöfninni.

Sigurjón ásamt búrinu sem nú er búið að venja Særós …
Sigurjón ásamt búrinu sem nú er búið að venja Særós við. Ljósmynd/ Sigurjón Veigar

Víðförull sjóköttur

Særós er nokkuð fælin og hefur haldið sig á sama staðnum allan túrinn í framskipinu þar sem hún fær ferskt loft og býr líka að góðum hitablásara. Bæli hennar er í afmörkuðu horni og segir Sigurjón að hún komist í raun ekkert annað. Í kvöld er hinsvegar ætlunin að ná kisu í búr sem Sigurjón smíðaði sérstaklega fyrir hana, svo öruggt sé að hún náist í land á fimmtudag.

„Við höfum haft svolítið gaman af þessu. Við erum búnir að vera að gefa henni og venja hana við búrið. Það er allt annað að sjá hana núna, hún er orðin betri í feldinum og það er farið að koma smá kjöt á hana.“

Skipverjar hafa auglýst á samfélagsmiðlum eftir eiganda Særósar en ólíklegt þykir úr þessu að hún sé heimilisköttur. Samtökin Villikettir hafa boðist til að taka við henni í landi og reyna að gera hana mannelska.

„Þetta er mjög víðförull köttur, búinn að fara mjög margar sjómílur,“ segir Sigurjón hlæjandi en hann þykist þess fullviss að Særósar bíði frekari ævintýri í landi.

Gnúpur GK-011.
Gnúpur GK-011. Ljósmynd/ Jón Steinar Sæmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert