Tóku á móti barni í austurborginni

Bæði móður og barni heilsast vel.
Bæði móður og barni heilsast vel. Wikipedia/Tom Andriaenssen

Það gerist víst reglulega að tekið sé á móti barni í sjúkrabifreiðum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu en barnið sem sjúkraflutningamenn tóku á móti í nótt kom í heiminn á baðherbergi í austurborginni.

Atburðarás var með þeim hætti að eftir fastan svefn vaknaði kona á þrítugsaldri við það að hún var komin með hríðir. Hún var að gera sig klára til að fara á kvennadeildina þegar staðan var orðin þannig að öruggast þótti að hringja á sjúkrabíl, sem kom á vettvang kl. 4.45.

„Þá var orðið skammt milli hríða og hún stödd inni á baðherberginu. Og eftir litla stund og skoðun var orðið ljóst að barnið myndi fæðast á staðnum,“ segir Guðmundur Guðjónsson, sem fór í útkallið við annan mann.

Allt gekk mjög hratt fyrir sig að sögn Guðmundar og höfðu þeir vart komið sér fyrir þegar stúlkan kom í heiminn. „Ég mátti hafa mig allan við að grípa,“ segir hann, en vart voru fimm mínútur liðnar frá því að sjúkraflutningamenn komu á vettvang og þar til lítil stúlka var komin í heiminn.

Barnið brást strax við og þandi lungun í hraustlegum gráti. Stúlkan er annað barn móður sinnar og báðum heilsast vel, að sögn Guðmundar.

Það var ekki ætlun konunnar að eignast barnið heima en um þessar mundir er ávallt ljósmóðir á bakvakt vegna heimafæðinga og var hún kölluð til. Þar sem allt gekk vel og eðlilega fyrir sig reyndist því óþarfi að flytja mæðgurnar á sjúkrahús og óku Guðmundur og félagi hans tómum bíl til baka, sælir eftir vel unnið verk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert