Nær öll séreignin í lánin

Langstærstur hluti úrræðisins hefur farið í að niðurgreiða húsnæðislán þeirra …
Langstærstur hluti úrræðisins hefur farið í að niðurgreiða húsnæðislán þeirra sem hafa nýtt sér það. mbl.is/Ómar

Landsmenn hafa varið 12,4 milljörðum króna af séreignarsparnaði sínum til að greiða niður húsnæðislán skattfrjálst. Úrræði ríkisstjórnarinnar sem tók gildi í fyrra heimilaði úttektir á sparnaðinum til að greiða niður höfuðstól lánanna eða til fyrstu húsnæðiskaupa. Aðeins 98 milljónir hafa farið í útborgarnir vegna húsnæðiskaupa.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi. Samkvæmt því hefur ríkið og sveitarfélög þannig veitt 5,1 milljarðs króna skattaafslátt vegna greiðslna inn á húsnæðislán frá því að úrræðið tók gildi í fyrra.

Þar af nemur tekjuskattur til ríkisins 3,3 milljörðum króna en útsvar til sveitarfélaga 1,8 milljörðum króna. Í svarinu kemur fram að hafa þurfi í huga að sá skattur mundi ekki innheimtast í einu lagi heldur dreifast yfir þann tíma sem séreignarsparnaðurinn hefði annars verið tekinn út.

Alls höfðu 482 nýtt sér möguleikann á að nota séreignarsparnað sinn upp í útborgun vegna húsnæðiskaupa í september. Fjárhæðin nam 98 milljónum króna. Skattaafslátturinn nemur 40 milljónum króna, tekjuskattur til ríkisins 26 milljónir en útsvar 14 milljónir.

Nákvæmar fjöldatölur um hversu margir höfðu nýtt sér úrræðið til að greiða af húsnæðislánum liggur ekki fyrir vegna ónógra merkinga í kerfinu, að því er segir í svarinu. Gróft mat geri ráð fyrir að um 35.000 manns hafi nýtt sér það.

Umsóknirnar séu þó ekki allar virkar, bæði sé nokkuð um að umsækjendur hafi hætt við en einnig nokkuð um að umsóknum hafi verið synjað, t.d. vegna þess að lánið sem sótt er um að greiða inn á uppfylli ekki skilyrði laganna.

Svar ráðherra við fyrirspurninni

Fyrri frétt mbl.is: 11,3 milljarðar út af viðbótarsparnaði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert