Tólf ára með landabrúsa

Lögreglan á Akureyri hafði ítrekað afskipti af ölvuðum ungmennum í nótt. Leyst var upp unglingasamkvæmi á Eyrinni þar sem lögregla sá unga stúlku halda á landabrúsa sem hún hafði verið að drekka úr. Sú reyndist tólf ára gömul, í gistingu hjá ættingjum í bænum á meðan foreldrar hennar voru erlendis.

Þá voru höfð afskipti af sex öðrum ungmennum á aldrinum 14-16 ára í og við miðbæ Akureyrar, undir áhrifum áfengis. Ein stúlka þeirra á meðal brást ókvæða við og reyndi að sparka og bíta í laganna verði. Auk ölvunarinnar voru þau brotleg gagnvart útivistarreglum og var því haft samband við foreldra þeirra og þau beðin um að sækja þau, jafnframt og barnaverndaryfirvöldum var gert viðvart.

Lögreglan á Norðurlandi eystra notaði þetta tilefni til þess að minna á útivistarreglur barna og biðja fólk að standa saman í að virða þær. Þá minnti lögreglan á fíkniefna- og skilaboðasíma sinn, 800-5005, þar sem m.a. er hægt að koma á framfæri upplýsingum um framleiðslu og sölu á landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert