Niðurstöðu að vænta á næstu vikum

Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson við meðferð al-Thani málsins.
Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson við meðferð al-Thani málsins. mbl.is/Rósa Braga

Álit endurupptökunefndar um beiðnir dæmdra manna í al-Thani-málinu svonefnda á að liggja fyrir á næstu vikum, að sögn Elínar Blöndal, formanns nefndarinnar í þessum málum. Málin séu stór en þau séu vel á veg komin. Nefndin fer einnig enn yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálin.

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. bankastjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður bankans, og Ólafur Ólafsson, einn eigenda bankans, sem sakfelldir voru í al-Thani-málinu sendu endurupptökunefnd beiðni um að mál þeirra væru tekin upp að nýju.

Tveir nefndarmenn og einn varamaður í endurupptökunefnd lýstu sig vanhæfa til þess að fjalla um málin. Elín fer því með formennsku í nefndinni í þeim.

Frestur sem lögmenn þeirra sem fóru fram á endurupptöku í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum höfðu til að skila athugasemdum við álit setts ríkissaksóknara er runninn út. Björn Bergsson, formaður endurupptökunefndar, segir að nefndin sé að fara yfir þær.

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í málunum, komst að þeirri niðurstöðu að rök séu fyrir endurupptöku á máli Sævars Ciesielskis, Tryggva Rúnars Leifssonar, Guðjóns Skarphéðinssonar og Alberts Klahns Skaftasonar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Hann taldi hins vegar að ekki væru næg rök fyrir endurupptöku á máli Erlu Bolladóttur. Kristján Viðar Viðarsson fór ekki fram á endurupptöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert