16 ára undir stýri

mbl.is/Július

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för sextán ára gamals ökumanns sem eðli málsins samkvæmt hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Viðkomandi var ekið heim, rætt við foreldra og barnavernd látin vita, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Um fimmleytið í gær kom góðborgari með veski sem fannst á víðavangi og lögregla kom því til rétts eiganda. Skömmu síðar barst lögreglu tilkynning um að reynt hefði verið að greiða fyrir vöru með fölsuðum peningaseðli. Viðkomandi var handtekinn og yfirheyrður og hald lagt á seðilinn í rannsóknarskyni.

Um klukkan 18 var tilkynnt um reiðan mann að brjótast inn í íbúð en þarna var um deilur milli leigjenda og eiganda íbúðar að ræða. Maðurinn, og kona með honum, voru að sækja muni sem þau áttu og leystist málið friðsamlega.

Klukkan 20.05 var tilkynnt um umferðaróhapp en sem sá sem ók var í æfingarakstri og ábyrgðarmaður farþegi. Ökumaður gerði þau mistök að bakka þegar átti að taka af stað og olli smávægilegu tjóni.

Klukkan 21.46 var tilkynnt um umferðaróhapp, ekið hafði verið á ljósastaur, viðbragðsaðilar voru sendir á forgandi á vettvang. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeildina með sjúkrabifreið. Ökumaður hafði ætlað að hægja ferðina og aka varlega en steig óvart á bensíngjöfina með þeim afleiðingum að bifreiðin endaði á ljósastaur. Meiðsli voru sem betur fer minniháttar og staurinn mun hafa óhappið af. Bifreiðin var þó dregin á brott með kranabifreið.

Klukkan 00.38 var lögreglubifreið ekið fyrir aftan við aðra bifreið sem skyndilega jók hraðann. Ökumaðurinn knái virti ekki reglur um hraða eða eða stöðvaði á næsta rauða ljósi heldur var ekið gegn því. Þegar ökumaður var svo stöðvaður reyndist hann undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert