Vetrarveður um helgina

Spáð er snjókomu fyrir norðan um helgina.
Spáð er snjókomu fyrir norðan um helgina. mbl.is/Styrmir Kári

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir hlýnandi veðri á morgun með hita á bilinu 2 til 7 stig annað kvöld, en vægu frosti fyrir norðan. Á fimmtudag er spáð hvassviðri eða stormi norðvestantil á landinu um kvöldið með snjókomu og kólnandi veðri. 

„Það snýst síðan yfir í norðlæga átt á fimmtudagskvöld og verður hún ríkjandi yfir helgina. Það verður því kalt í veðri og él og snjór fyrir norðan,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is og bætir við að ekta vetrarveður sé því í vændum um helgina.

Þannig gerir Veðurstofan ráð fyrir norðanátt með snjókomu og éljum norðantil á laugardag og sunnudag en yfirleitt úrkomulaust sunnantil. Er einnig gert ráð fyrir talsverðu frosti.

„Þetta verður svona gusa eins og kom um daginn. Það verður því talsvert mikið frost alls staðar um helgina,“ segir Birta Líf en vetrarveðrið hefst fyrst á Vestfjörðum með snjókomu næstkomandi fimmtudagskvöld.

Nánar má fylgjast með veðri á veðurvef mbl.is

Víða má finna hálku og snjóþekju

Vegagerðin vill benda vegfarendum á að víða má finna hálkubletti á Hellisheiði og í Þrengslum auk þess sem hálka eða hálkublettir eru víða á öðrum leiðum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum og éljagangur á Snæfellsnesi. Snjóþekja eða hálka er nú á Vestfjörðum og éljagangur eða snjókoma á sunnanverðum fjörðum.

Fyrir norðan er snjóþekja eða hálka á vegum og éljagangur og skafrenningur fyrir austan Eyjafjörð.

Þá er óveður á Sandvíkurheiði og Vatnskarði eystra. Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á fjallvegum, en greiðfært er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert