„Bara þykkt lag af körlum“

Hlutur kvenna í fjölmiðlum hefur lítið vænkast.
Hlutur kvenna í fjölmiðlum hefur lítið vænkast. mbl.is/Árni Sæberg

Hlutfall kvenkyns viðmælenda í fjölmiðlum hefur sáralítið vænkast síðastliðin 15 ár.

Þetta kom fram á jafnréttisþingi í dag þar sem Rósa Guðrún Erlingsdóttir fór yfir niðurstöðu viðmælandagreiningar velferðarrráðuneytis og fjölmiðlavaktarinnar þar sem gerð er grein fyrir kyni þeirra viðmælanda sem komið höfðu fram í völdum fréttaþáttum í útvarpi og sjónvarpi á tímabilinu september 2014 til september 2015.

„Þessar tölur koma að mörgu leiti á óvart. Þegar ég sá tölurnar fyrst hugsaði ég að við hefðum allt eins getað fjallað um niðurstöðu könnunar sem gerð var árið 2000 og greindi hlut kvenna í fjölmiðlum,“ sagði Rósa. Sagði hún stöðuna aðeins hafa lagast lítillega frá árinu 2000.

Fyrr í vikunni birtust niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar sem sýndu að konur eru umfjöllunarefni eða viðmælendur í um fjórðungi frétta í heimspressunni en hér á landi er hlutfallið um 20%. Hér á landi er rætt  við eða fjallað um konur í 33% þeirra frétta sem konur vinna fyrir íslenska fréttamiðla en fyrir karlkyns fréttamenn er hlutfallið aðeins 8%.

Frétt mbl.is: Konur fjórðungur viðmælenda í heimspressunni

Tími til róttækra aðgerða?

Í greiningu velferðarráðuneytisins var m.a. borinn saman viðmælendafjöldi í fréttatímum og völdum þáttum Ríkisútvarpsins sem og í fréttatímum og völdum þáttum 365 miðla.

Í sjónvarpsfréttatímum RÚV voru konur á bilinu 31,4 og 32,6% viðmælenda og í sjónvarpsfréttum 365 voru þær 30,7% viðmælenda. Í útvarpsfréttatímum RÚV hækkaði hlutfall kvenna eftir því sem leið á daginn úr 25,6% til 29,8% viðmælanda og sama var uppi á teningnum hjá 365 þar sem konur voru 22,9% viðmælenda í morgunfréttum og 26,8% í hádegisfréttum.

„Maður skyldi ætla að RÚV myndi gera betur en raunin er, þó hann komi betur út en 365,“ sagði Rósa og vísaði til þess að annar miðillinn væri einkarekinn en hinn ríkisrekinn. Hún birti jafnframt lista yfir vinsælustu viðmælendur í útvarpi eftir miðlum og þáttum og benti á að karlar væru sérstakelga áberandi sem álitsgjafar í morgunþáttum 365. „Þeir koma oftast í pörum,“ benti Rósa á. „Það ætti að vera auðvelt að bjóða einni konu.“

Aðeins ein kona komst inn á listann yfir 10 vinsælustu viðmælendur útvarpsþátta en það var Katrín Jakobsdóttir í fjórða sæti listans. Efstur var Bjarni Benediktsson, þá Þorsteinn Víglundsson og þriðji var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Samtals voru fimm konur á listanum þegar hann var lengdur í 20 manns en þar sat Vigdís Hauksdóttir í 13. sæti, Ragnheiður Elín Árnadóttir í 16. Sæti, Eygló Harðardóttir í 17. sæti og Ólafía B. Rafnsdóttir í 20. sæti.

„Er kominn tími til að breyta og tími til að grípa til róttækari aðgerða eða eigum við að hinkra í eins og 20 ár til viðbótar?“

Að endingu birti Rósa mynd frá leiðtogafundi G20 ríkjanna þar sem aðeins fjórar konur voru sjáanlegar. Yfir myndinni stóð: „Ekkert glerþak, bara þykkt lag af körlum.“ Sagði hún þá setningu eiga afar vel við það umhverfi sem fjölmiðlar hrærast í.

„Svona lítur heimsmyndin út“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert