Kjarnmestu konur í heimi?

Konur á forsíðum gamallra tímarita.
Konur á forsíðum gamallra tímarita.

Erindi Guðnýjar Gústafsdóttur, doktorsnema,  á Jafnréttisþingi í morgun bar yfirskriftina Kjarnmestu konur í heimi. Erindið var hinsvegar engin lofræða, hvorki um íslenskar konur né aðstæður þeirra.

Í erindinu á undan hafði verið farið yfir kynjatalningu á viðmælendum fjölmiðla í útvarpi og sjónvarpi þar sem greint var frá því að konur væru í miklum minnihluta og að ljóst væri að meira þyrfti til ef ætlunin væri að jafna hlutföllin. Sagði Guðný höfðatölujafnrétti hinsvegar ekki nægjanlegt eitt og sér.

„Þetta snýst ekki bara um hversu margar konur og hversu margir karlar heldur hvernig konur og hvernig karlar.“

Guðný sagði yfirskriftina, „Kjarnmestu konur í heimi“, vera ímynd íslensks kvenleika. Hún væri ekki ný af nálinni og ræki uppruna sinn allt aftur til landnáms og Íslendingasaganna.

„Við þekkjum öll ímynd hinnar glæsilegu, skeleggu konu sem átti fleygar setningar, bar harm sinn í hljóði og bruggaði launráð bakvið tjöld sinn eða bakvið manninn sinn, réttara sagt,“ sagði hún og áréttaði að þessi ímynd endurspeglaði ekki félagslegan eða lagalegan rétt íslenskra kvenna á þeim tíma.

„Ímyndin um íslenskar konur sem sterkar, sjálfstæðar og nýlega jafnréttustu konur í heimi lifir góðu lífi.,“ hélt hún áfram. „En þrátt fyrir áratugalang kynjajafnrétti samkvæmt lögum var landið sett á hausinn af nokkrum körlum.“

Margar konur útilokaðar

Doktorsritgerð Guðnýjar fjallar um birtingarmyndir kvenna í fjölmiðlum, nánar tiltekið tímaritum frá árinu 1980 fram til 2000. Segir hún ástæðuna fyrir valinu hafa verið það mótsögn sem felst í því að þrátt fyrir að konur á Íslandi búi við mest jafnrétti miðað við aðrar kynsystur sínar halli enn á þær þegar kemur að fjölmiðlum og stjórnunarstörfum auk þess sem konur virðist vera handan réttar þegar kemur að kynferðisofbeldi.

„Ég ákvað að taka fjölmiðla sem er ritstýrt af konum um konur og fyrir konur,“ sagði Guðný um ástæðu þess að hún tók tímaritin fyrir. „Mér finnst nóg að horfa á það í 20 mín á hverjum degi þegar karlar búa til fréttir um sjálfan sig fyrir aðra karla.“

Hún segir að jafnvel áður en hún fór að greina gögnin hafi það blasað við sér að konurnar væru allar hvítar, fæddar á Íslandi, töluðu íslensku, væru almennt vel menntaðar. Mest áberandi hóparnir voru konur mikilsmetinna karla, mæður margra barna og fegurðardrottningar.

„Elíta íslenskra kvenna rataði á skrifborðið mitt, hinsegin konur, fatlaðar konur, aldraðar konur, vinnukonur, konur sem minna mega sín voru útilokaðar.“

Mæður, eiginkonur og fegurðardrottningar

Guðný notaðist við orðræðugreiningu til að skoða í hvaða samhengi hlutirnir væru settir fram þar sem hugmyndafræðilegir straumar og stefnur endurspegluðust í orðum kvennanna. Sagði hún ákveðnar tegundir kvenleika hafa verið hafinn í hæstu hæðir í tímaritunum.


„Allt tímabilið voru mæður afskaplega fyrirferðamiklar. Margra barna mæður hlutu sérstakan sess,“ sagði Guðný . Hún sagði allar konurnar hafa verið gagnkynhneigðar í gagnkynhneigðum hjónaböndum og að það að þær væru giftar mæður staðfesti og löggilti kvenleika þeirra. Þær hafi lagað sig að því viðmiði sem ríkti á fyrri hluta tímabilsins þar þær vísuðu í hefðina og náttúruna þegar þær ræddu hlutskipti sitt. Með árunum hefðu konur haldið áfram að tala um hvað þær ættu mörg börn en viðmiðin breyttust.

Sagði Guðný að á seinni hluta tímabilsins hafi konur farið að vísa í frjálst val, þær hafi valið að verða mæður. Nýfrjálshyggjan hafi gert hugmyndina um einstaklingsvædda ábyrgð að normi sem konur löguðu sig að. Tilgangurinn var sá sami en orðræðan breytt.

„Nýfrjálshyggjunni var tekið á nafnvirði. Það var aldrei spurt hvort valið væri í raun frjálst eða hvort það væri mótað,“ sagði Guðný. Sagði hún stefnuna hafa fært með sér þá hugmynd að ef konur kæmust ekki í áhrifastöður væri það þeim að kenna, þær væru ekki nógu framsæknar eða veldu sér eitthvað annað.

„Eiginkonur voru líka sýnilegar, sérstaklega framan af á tímabilinu. Þær töluðu í og í kringum eiginmenn sína og stilltu sér upp sem konurnar á bakvið kvöldin. (...) Þær voru giftar valdamiklum mönnum en voru í raun valdaminnstu konurnar. Þær höfðu rödd í gegnum mennina en alls enga án þeirra.“

Þriðji stærsti hópurinn sem birtist Guðnýju voru fegurðardrottningarnar sem stigu fram árið 1985 þegar fegurð íslenskra kvenna varð að „glóbal sannleika“ . Þann hóp nefndi Guðný sem þann farsælasta. „Þær komu sáu og sigruðu með fegurðina að vopni... spyrtar við hefðina líkt og forkunnarfagrar konur Íslendingasagna.“

Sigrar og tækifæri hópsins takmörkuðust hinsvegar við útlit þeirra og æsku. Sagði hún þær tjóðraðar við eigin líkama, þær væru seljandinn en líka söluvaran með takmarkaðan sölutíma.

Aðeins hunang á snuðið

Þá var einn hópur ótalinn, óvenjulegustu konurnar sem voru að miklu leiti listakonur en líka úr öðrum hópum sem „bjuggu til rými í orðræðunni og sprengdu hana upp.“

Þær voru gjarnan ógiftar, fráskildar einstæðar mæður sem voru óhræddar og oft með usla í viðtölum sem leiddi til þess að blaðamenn töluðu gjarnan niður til þeirra.

„Þessum konum eigum við mikið að þakka í dag,“ sagði Guðný.

Sagði hún langflesta viðmælendur hafa svarið af sér femínista, valið ímynd íslensks kvenleika og fórnað eigin gerendafrelsi sem ókvenlegu.

„Þó breyting á löggjöfinni skipti mjög miklu máli hefur það sýnt sig og sannað að hún er alls ekki nóg. Við höfum búið við lagalegt kynjajafnrétti frá 1976 en hvar er það?“

Sagði hún lagajafnrétti innistæðulítið tákn valdhafans sem nær ekki mikið lengra.

„Einar og sér er það eins og snuð upp í hópa til að halda þeim niðri og gera þá ánægða: Við erum jú öll jafnrétt, lögin segja það. Sömuleiðis eru örfáar valdakonur í ójafnréttusamfélagi aðeins hunang á sama snuðið. Er ímynd kjarnyrtu kvennanna einhverskonar hunang eða gervisæta á sama snuðið?“

Einn hópurinn sem birtist hvað oftast í rannsókn Guðnýjar var …
Einn hópurinn sem birtist hvað oftast í rannsókn Guðnýjar var skilgreindur út frá móðurhlutverkinu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Fegurðardrottningar voru einna farsælasti hópurinn en völdin takmörkuðust við útlit …
Fegurðardrottningar voru einna farsælasti hópurinn en völdin takmörkuðust við útlit þeirra. Ljósmynd/Jón Svavarsson
Guðný tók sérstaklega fyrir tímarit ætluð konum.
Guðný tók sérstaklega fyrir tímarit ætluð konum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert