Svo virðist sem einhverjir á vegum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hafi hakkað vefsíðuna sem hýst var undir léninu Kristsdagur.is.
Vefsíðan og lénið eru á vegum Kristniboðssambandsins. Síðan var notuð á síðasta ári vegna hátíðarinnar Kristsdag sem fram fór í ráðstefnu- og tónleikahúsinu Hörpu og þar áður í tengslum við Hátíð vonar árið 2013.
Frétt mbl.is: Graham sagðist ekki hommafælinn
Birt hefur verið vefsíða með svörtum bakgrunni undir léninu í stað þeirrar sem fyrir var. Þar kemur fram að síðan hafi verið hökkuð af Ríki íslams. Með fylgir myndband sem sýnir meðal annars aftökur framkvæmdar af vígamönnum samtakanna. Ástæða er til að vara við því. Undir myndbandinu er síðan birtur eftirfarandi texti í lauslegri þýðingu:
„Nú er stríðið okkar hafið. Við semjum ekki nema með fallbyssum, við ræðum ekki málin nema með byssum, við tölum ekki nema af krafti. Og við munum ekki hætta að berjast fyrr en komið er að bænastund og við munum biðjast fyrir í Róm samkvæmt vilja Allah í herferð líkt og Allah hefur lofað og Allah gengur ekki á bak orða sinna.“
Samkvæmt upplýsingum frá Kristniboðssamtökunum var tekið eftir þessu í morgun og í kjölfarið haft samband við Póst- og fjarskiptastofnun. Málið sé í farvegi innan samtakann og ekki útilokað að það kunni að verða kært til lögreglu í framhaldinu ef ástæða þykir til.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslensk vefsíða er hökkuð í nafni Ríkis íslams en það gerðist einnig í mars á þessu ári þegar Njála.is, vefsíða Sögusetursins á Hvolsvelli, var hökkuð. Þá var vefsíðu haldið úti til skamms tíma í nafni samtakanna undir tveimur íslenskum lénum, Khilafa.is og Khilafah. Málið vakti mikla athygli og var lénunum að lokum lokað ef Isnic, Interneti á Íslandi ehf.