Snjókoma breytist í rigningu

Hlý skil úr suðri nálgast land og þýðir það aukna úrkomu sem byrjar með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands með morgninum, en rigningu síðdegis. Fyrir norðan og austan verður hins vegar hæglætisveður og nokkuð bjart fram eftir degi, en í kvöld þykknar upp með dálítilli snjókomu eða slyddu.

Vindurinn tekur ekki við sér að ráði fyrr en í kvöld og nótt, en þá bætir í suðvestanáttina. Hvassviðri á morgun, jafnvel stormur á stöku stað, og slydduél eða él, en úrkomulítið austan til og kólnar aftur í veðri. Eftir hádegi snýst í norðaustanhvassviðri norðvestan til, jafnvel storm, með snjókomu og skafrenningi sem breiðir úr sér yfir norðan vert landið þegar kemur fram á kvöld. Ljóst er að færðin verður ekki góð fyrir norðan og varasöm skilyrði gætu myndast, einkum á heiðum. Norðanáttin heldur velli næstu daga og má búast við talsverðu frosti um helgina og áfram lélegri færð fyrir norðan, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgun.

Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum á Suðurlandi. Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum.

Snjóþekja eða hálka er á Vestfjörðum. Hálka og hálkublettir eru á vegum á Norður- og Austurlandi.

Greiðfært er víðast hvar með suðausturströndinni en hálkublettir á milli Kirkjubæjarklausturs og Mýrdalssands.

Minnkandi norðvestanátt austast, en hæglætisveður í öðrum landshlutum og úrkomulítið. Hægt vaxandi sunnanátt um og eftir hádegi með snjókomu eða slyddu, en 8-15 m/s undir kvöld og rigning sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 8 stig, en frostlaust suðvestan til. Hlýnar síðdegis, hiti 2 til 7 stig í nótt. Vaxandi suðvestlæg átt í kvöld, 13-20 m/s á morgun og slydduél eða él, en úrkomulítið norðaustan og austan til. Snýst í norðaustan 13-20 og snjókomu norðvestan- og síðan norðanlands þegar líður á daginn. Hiti um frostmark.

Á fimmtudag:

Suðvestan 15-23 m/s og skúrir eða él, en bjartviðri um landið austan vert. Hiti 0 til 5 stig. Norðanstormur norðvestan til á landinu um kvöldið með snjókomu og kólnandi veðri.

Á föstudag:
Norðan 8-15 m/s og snjókoma, en úrkomulítið á sunnan verðu landinu. Frost 1 til 8 stig.

Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Norðanátt með snjókomu eða éljum, en yfirleitt úrkomulaust S-til. Talsvert frost.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga átt og hægt hlýnandi veður með úrkomu víða, en þurrt að kalla fyrir norðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert