Sýknaður af nauðgun gegn 17 ára stúlku

Maðurinn var sýknaður af ákæru um nauðgun.
Maðurinn var sýknaður af ákæru um nauðgun. mbl.is/G.Rúnar

Karlmaður var í dag sýknaður í Héraðsdómi Vesturlands af ákæru um nauðgun og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa þvingað 17 ára stúlku til samræðis með því að beita hana ofbeldi, meðal annars með að draga hana nauðuga á afskekktan stað og afklæða hana að neðan.

Maðurinn játaði því að hann hafi haft samræði við stúlkuna, en framburður hans stangaðist að öðru leyti á við framburð stúlkunnar. Sagði hún að hann hafi farið með hana inn í sund og dregið niður um sig buxurnar. Hún hafi sagt að hún vildi þetta ekki og þegar hann hafi heyrt læti hafi hann dregið hana á afskekktari stað. Þar hafi hún einnig sagt að hún væri mótfallin verknaðinum en að hann hafi nýtt sér stærðar- og styrksmun til að þvinga hana til samræðis. Framkvæmd var DNA greining og passaði sýni af sæði sem fannst á stúlkunni við DNA-snið mannsins.

Saga mannsins var aftur á móti frábrugðin að því leyti að hann sagði að þau hafi haft samfarirnar með hennar samþykki. Fyrst um sig hafi þær átt sér stað í smásundi þar sem þau hefðu bæði farið úr buxunum á sama tíma.

Þekktust þau bæði fyrir atvikið og lýsti stúlkan því þannig „að tengslunum mætti frekar lýsa sem vináttu en kunningsskap. Þá hefðu þau einu sinni kysst, einhverjum mánuðum áður en þetta gerðist,“ eins og segir í dómnum. Maðurinn og stúlkan voru á leið heim eftir ball þetta kvöld, en ætlunin var að halda gleðskapnum áfram í heimahúsi ásamt fleirum. Húsið var aftur á móti læst og þau hafi byrjað að kyssast þar fyrir utan. Þau hafi svo tekið buxurnar niður um sig eftir að hafa beðið eftir öðru fólki í einhvern tíma. Sagði hann atvikið með hennar samþykki og að hann hefði alla vega ekki þvingað hana til neins. „Hún hefði aldrei beðið hann um að hætta eða gefið það til kynna með öðrum hætti,“ segir í dómnum.

Fram kemur í dómnum að fyrir liggi að engir áverkar hafi greinst á stúlkunni þegar hún var skoðuð á neyðarmóttöku um miðjan dag á mánudegi eftir að atvikið gerðist á aðfaranótt laugardags. Þá liggi ekki mörg önnur gögn fyrir í málinu en orð mannsins og stúlkunnar. „Um það hvort ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru er ekki við önnur haldbær gögn að styðjast en framburð ákærða og brotaþola, sem að mati dómsins hefur í sjálfu sér verið eindreginn og skýr hjá þeim báðum um framangreind atvik og í öllum meginatriðum í samræmi við framburð hvors fyrir sig hjá lögreglu. Stendur þar því orð gegn orði,“ segir í dómnum og var maðurinn því sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert