Tólf í keppnisbann vegna sterasölu

Alþjóðasamband líkamsræktarmanna á Íslandi (IFBB) hefur sett tólf manns í keppnisbann í kjölfar þess að viðkomandi urðu uppvísir að því að selja stera og önnur ólögleg efni.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Alþjóðasambands líkamsræktarmanna sem birt er á vef Fitness.is

Viðkomandi auglýstu efnin til sölu undir eigin nafni í lokuðum hópum á Facebook. Um er að ræða tólf fyrrverandi keppendur sem hafa keppt á Íslands- eða bikarmótum á undanförnum árum. Enginn þeirra keppti hinsvegar á nýafstöðnu bikarmóti.

Frétt mbl.is: 90 keppendur á nýafstöðnu bikarmóti í fitness

„Í heildina liggja fyrir upplýsingar um 30 manns sem voru að selja stera í umræddum hópum á Facebook. Tólf þeirra hafa á einhverjum tímapunkti á undanförnum árum keppt í vaxtarrækt eða fitness og falla því undir Alþjóðasamband líkamsræktarmanna. Aðrir í þessum 30 manna hópi hafa ekki komið nærri fitness- eða vaxtarræktarmótum hér á landi.

Málið er litið mjög alvarlegum augum og að höfðu samráði við yfirstjórn IFBB – alþjóðasambands líkamsræktarmanna erlendis, var ákveðið að tilkynna umræddum aðilum um keppnisbann sem og bann við þátttöku í viðburðum á vegum IFBB.

Ennfremur er viðkomandi óheimilt að þjálfa keppendur sem keppa á mótum IFBB. Enginn af þessum tólf hafa verið að sinna umfangsmikilli þjálfun en ekki þykir verjandi að sterasölum sé treystandi til að undirbúa aðra fyrir keppni,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert