Fangar gáfu stúlkum einkunnir með þumalfingri

Litla-hraun.
Litla-hraun. mbl.is/Ómar

Til eru fjölmörg dæmi um ungar stúlkur sem hafa komið á Litla-Hraun til að heimsækja fanga sem þær þekktu ekki í sjón. Einnig hafa stúlkur verið skelfingu lostnar við komuna í fangelsið og jafnvel þakkað fangavörðum fyrir að vísa þeim frá þar sem þær vildu alls ekki heimsækja fangana en þorðu ekki að segja frá því.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Fangelsismálastofnunar um nýtt frumvarp innanríkisráðherra um fullnustu refsinga.

Markmið frumvarpsins er að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti, að varnaðaráhrif refsinga séu virk, að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu. Nýja frumvarpið er ítarlegra en núgildandi löggjöf.

Mikilvægt að heimsóknir séu ekki misnotaðar

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fangar í lokuðum fangelsum geti fengið heimsóknir frá vinum sínum tvisvar sinnum í mánuði nema í sérstökum tilvikum. Þá er einnig gert ráð fyrir því að Fangelsismálastofnun setji nánari reglur um heimsóknir, s.s. um undanþágur fyrir fleiri vinaheimsóknum.

Í umsögn Fangelsismálastofnunnar kemur fram að heimsóknir til fanga séu mikilvægt úrræði til þess að viðhalda tengslum þeirra við fjölskyldu og vini og draga þannig úr neikvæðum afleiðingum fangelsisvistar. „Um leið og nauðsynlegt er að viðhalda slíkum tengslum er einnig mikilvægt að gæta þess að heimsóknir séu ekki misnotaðar en því miður kemur oft fyrir að heimsóknargestir smygli eða reyni að smygla hlutum í fangelsið, svo sem fíkniefnum,“ segir í umsókninni og er bent á að það sé mjög alvarlegt.

Nefnt er dæmi þar sem ungur fangi á Litla-Hrauni dó fyrir nokkrum árum eftir ofneyslu fíkniefna í fangelsinu og þá er einnig til nýlegt dæmi um að svokölluð nasistasýra hafi komist í umferð á Litla-Hrauni með alvarlegum afleiðingum. Í báðum tilvikum er grunur um að efnin hafi borist inn í fangelsið með heimsóknargestum.

Stúlkum stillt upp í glugga heimsóknarherbergis

Einnig eru til fjölmörg dæmi um ungar stúlkur sem hafa komið á Litla-Hraun eftir að fangar höfðu sett þær á heimsóknarlistann sinn en við komu í fangelsið varð fangavörðum ljóst að þær þekktu ekki fangana í sjón sem þær ætluðu að heimsækja. Þá hafa stúlkur verið skelfingu lostnar við komuna í fangelsið og hafa jafnvel þakkað fangavörðum fyrir að vísa þeim frá þar sem þær vildu alls ekki heimsækja fangana en þorðu ekki að segja frá því.

Þar að auki er vitnað í dæmi þegar að fangar „stilltu“ stúlkum upp í glugga heimsóknarherbergis sem vísaði út á fótboltavöll fangelsisins en þar stóðu aðrir fangar og vísuðu þumalfingri sínum annaðhvort upp eða niður eftir því hvort þeir vildu fá þær í heimsókn til sín eða ekki.

Í umsögninni er lögð áhersla á mikilvægi þess að fangelsisyfirvöld hafi næg úrræði til þess að koma í veg fyrir misnotkun af því tagi sem hér um ræðir. „Með þeim tillögum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu er verið að skerpa á reglunum og reyna að koma í veg fyrir óæskilegar heimsóknir til fanga. Ekki verður séð að gengið sé á réttindi fanganna í því sambandi. Fangar munu eftir sem áður geta fengið heimsóknir frá fjölskyldum sínum og þeim vinum sem talið er að séu traustsins verðir,“ segir í umsögn Fangelsismálastofnunar.

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert