Fljótur að forða sér úr bátnum

Eldurinn var fljótur að breiðast út í bátnum.
Eldurinn var fljótur að breiðast út í bátnum. Ljósmynd/Tryggvi Sigurðsson

Flest bendir til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni þegar eldur kom upp í Brandi VE austan við Vestmannaeyjar í gær. Einn var um borð og komst hann að sjálfsdáðum í björgunarbát. Lögreglan í Vestmannaeyjum og Rannsóknarnefnd samgönguslysa vinna saman að rannsókn málsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum er búið að taka skýrslu af skipverjanum og er verið að ljúka rannsókn á bátnum. Flest bendi til þess að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.

Eldurinn braust hratt út. Skipverjinn var fljótur að átta sig á stöðu mála, losaði gúmmíbátinn og kom sér út í hann. Hann náði ekki að kalla eftir aðstoð um borð í bátnum en sendi neyðarblys um borð í gúmmíbátnum.

Skipverjar á Frá VE komu auga á reyk frá bátnum en sáu ekki gúmmíbátinn. Því varð það skipverjanum á Brandi VE til happs að hann gat skotið upp blysinu og gert vart við sig.

Frétt mbl.is: „Báturinn hreinlega skíðlogaði“

„Við erum í sambandi við lögregluna í Vestmannaeyjum og erum að fá sérfræðing til að skoða bátinn. Við sjáum hvað kemur út úr rannsókn hans og metum svo stöðuna í framhaldi af því,“ segir Jón Ingólfsson, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is.

Nefndin leggur bæði mat á ýmis gögn, meðal annars þau sem sérfræðingur leggur fram eftir skoðunina á bátnum og framburð vitna og þess sem var um borð í Brandi VE. Ekki gott að segja hversu langan tíma rannsóknin tekur en Jón segir að það gæti þó verið fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert