Schengen ekki verið í deiglunni

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Gagnrýni okkar á Schengen á sínum tíma var auðvitað nátengd umræðunni um Evrópusambandið. Síðan hefur það gerst með Schengen eins og EES-samninginn að eftir að þetta er orðið hefur það ekki verið mikið til umræðu og fyrir vikið hefur frekar verið áréttuð stefnan varðandi Evrópusambandið.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is spurð um stefnu flokksins gagnvart Schengen-samstarfinu og aðildar Íslands að því. VG gagnrýndi á sínum tíma harðlega aðild Íslands að samstarfinu. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag fyrir að hafa sagt í Morgunblaðinu í dag að hann hefði aldrei haft sterka sannfæringu fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

„Þetta mál hefur ekkert verið í deiglunni í íslenskum stjórnmálum lengi þannig að það hefur ekkert verið ályktað sérstaklega um þetta frekar en til dæmis EES. En okkar stefna, eins og lesa má úr ályktunum síðasta landsfundar, er sú að við leggjum fyrst og fremst áherslu á aukna opnun og möguleika fólks á að fara á milli landa. Til að mynda varðandi hælisleitendur sem hingað hafa verið að koma. Tekið verði við fleiri hælisleitendum,“ segir Katrín.

Ljóst sé að mjög margt sé í endurskoðun varðandi Schengen-samstarfið um þessar mundir. Meðal annars svokölluð Dyflinnar-reglugerð sem gerir ráð fyrir að hælisumsóknir séu teknar til skoðunar í fyrsta Schengen-ríki sem hælisleitandi kemur til. „En aðaláhersla okkar er fyrst og fremst á mannúðlega stefnu í þessum efnum, að Evrópa loki sig ekki af frá umheiminum.“

Hins vegar séu margar hliðar á málinu og til að mynda óvíst hvað fyrirhugað hert landamæraeftirlit á ytri mörkum Schengen-svæðisins sem Evrópusambandið hefur boðað muni hafa í för með sér. „Þannig að auðvitað þurfum við bara að fylgjast mjög vandlega með umræðunni og hvernig þessi mál eiga eftir að þróast. Það veit enginn hvað kemur út úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert