Tveggja ára bann vegna sölunnar

„Við fengum fyrst veður af þessu fyrir tæpum mánuði og fengum fyrst ábendingu um þrjá. Við vorum sjálfir ekki í þessum Facebook-hópum en höfðum innanbúðarmann sem spurði okkur út í þessa þrjá. Þá komumst við að því að þetta voru menn á okkar vegum,“ segir Einar Guðmann, forsvarsmaður og yfirdómari Alþjóðasambands líkamsræktarmanna á Íslandi (IFBB).

Sambandið hefur sett tólf manns í tveggja ára keppnisbann í kjölfar þess að þeir urðu uppvísir að sölu stera og annarra ólöglegra efna í þremur lokuðum Facebook-hópum. Auglýstu þeir efnin til sölu undir eigin nafni en þeir eiga það sameiginlegt að hafa keppt á Íslands- eða bikarmótum í vaxtarækt á undanförnum árum.

Frétt mbl.is: Tólf í keppnisbann vegna sterasölu

Sumir í einu sinni, aðrir mun oftar

Að sögn Einars grunaði stjórnendur IFBB á Íslandi fljótlega að um fleiri væri að ræða en þessa þrjá. Eftir að málið hafði verið kannað nánar kom í ljós að um tólf manns var að ræða. Umfang sölunnar var þó mismikið. „Sumir voru greinilega að gera þetta einu sinni en aðrir virtust vera virkari,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

„Þetta er dálítið sérstakt. Við höfum aldrei áður fengið svona í hendurnar en höfum auðvitað áður heyrt sögusagnir. En þegar menn koma fram undir nafni og mynd af sjálfum sér, þá eigin Facebook-prófílum, þá fer þetta ekki á milli mála,“ segir Einar.

Í ljós kom að þrjátíu manns höfðu selt stera og önnur ólögleg efni í hópunum þremur. Var það fólk úr öllum áttum að sögn Einars og ekki aðeins þeir sem keppa í vaxtarækt.

Sex ár haldi þeir sölunni áfram

Venjan er að úrskurða keppendur í vaxtarækt í fjögurra ára keppnisbann falli þeir á lyfjaprófi. Við brot á siðareglum er aftur á móti heimilt að útskurða í tveggja ára bann. „Í þessum tilvikum er ekki hægt að birta nöfn fólksins en falli það á lyfjaprófi er það gert,“ segir Einar.

Verði stjórnendur IFBB á Íslandi varir við að þeir seldu efnin og voru úrskurðaðir í keppnisbann haldi þessari iðju áfram verður keppnisbannið lengt í sex ár. Lögreglan þekkir til málanna því stjórnendurnir leituðu þangað þegar þeir hófust handa við að skoða málið.

„Þetta er heitt mál en mér fannst nauðsynlegt að taka á þessu. Ég verð líka alveg var við það að menn eru mjög ánægðir með að tekið hafi verið á þessu. Það má örugglega gera meira og betur. Það væri mjög gaman að sjá aðrar íþróttagreinar taka líka á þessu í sínum málum,“ segir Einar.

Hann segir viðhorfið hafi verið á þá leið að það séu fyrst og fremst keppendur og iðkendur vaxtaræktar sem noti stera en það sé síður en svo þannig. „Þetta er gegnsýrt allsstaðar. Ég held að það sé enginn sem geti sett sig á háan hest yfir þessu en maður verður oft var við það, þá yfirleitt á okkar kostnað,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert