Verðtryggingin óröskuð

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur sýknaði í dag Íbúðalánasjóð af kröfum tveggja lántakenda hjá sjóðnum sem fóru fram á viðurkenningar á því fyrir dómi að sjóðnum hefði verið óheimild að innheimta verðbætur af láninu. Það þýddi að mati lántakendanna að umframgreiðslur vegna verðbóta á afborganir og vexti ættu að reiknast strax við greiðslu hvers gjalddaga til frádráttar höfuðstól lánsins. Lánið ætti fyrir vikið að lækka sem því næmi.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að tilhögun verðtryggingarinnar sem samið hefði verið um við útgáfu skuldabréfsins hefði verið lögmæt í ljósi ákvæða laga um vexti og verðtryggingu. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður einnig sýknað Íbúðalánsjóð af kröfunni.

Dómurinn taldi Íbúðalánasjóð hafi borið að veita lántakendum upplýsingar um fjögur atriði við lántökuna  með tillit til laga og dómafordæma. Fyrir það fyrsta höfuðstól lánsins, það er fjárhæð þess án nokkurs kostnaðar, í annan stað heildarlántökukostnað, í þriðja lagi um árlega hlutfallstölu kostnaðar sem skyldi lýst sem árlegri prósentu heildarlántökukostnaðarins af höfuðstól skuldarinnar og í fjórða lagi um heildarupphæð sem greiða ætti og væri samtala höfuðstóls, vaxta og lántökukostnaðar.

Þá var með hliðsjón af fyrri dómi Hæstaréttar ekki talið að Íbúðalánasjóði hefði verið skylt samkvæmt samkvæmt lögum að láta lántakendunum í té við lánveitinguna sérstaka greiðsluáætlun sem gerði ráð fyrir tiltekinni hækkun vísitölu neysluverðs og að við gerð lánssamningsins hefði verið þörf að gera ráð fyrir að verðbætur teldust til heildarlántökukostnaðar. 

Við úrlausn málsins leit Hæstiréttur meðal annars til þess að tilskipun 87/102/EBE, sem lántakendurnir byggðu mál sitt meðal annars á, hefði ekki haft lagagildi hér á landi og fyrir vikið væri ekki hægt að nota hana sem lögskýringu vegna íslenskra laga. Héraðsdómur taldi hins vegar óhjákvæmilegt að líta til tilskipunarinnar við túlkun þeirra laga sem ættu uppruna sinn í henni. Eftir sem áður komust bæði dómstigin að sömu niðurstöðu í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert