„Ekki í okkar nafni“

Ég vona innilega, dætra minna vegna, að þessi ólga líði …
Ég vona innilega, dætra minna vegna, að þessi ólga líði hjá og í framtíðinni verði pláss fyrir alla í fjölmenningarsamfélagi," segir Birta Árdal Bergsteinsdóttir. Ljósmynd/úr einkasafni

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Parísarborg þann 13.nóvember síðastliðinn virðist aukin krafa hafa verið sett múslímum að fordæma og jafnvel biðjast afsökunar á voðaverkum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Múslimar um heim allan hafa hópast saman til að sýna samstöðu með fórnarlömbum hryðjuverkanna og mótmælt hryðjuverkum í nafni Íslamstrúar undir slagorðunum, „Ekki í okkar nafni.“

Á meðan fjölmargir velta fyrir sér fáranleika þess um af hverju í ósköpunum múslímar ættu að biðjast afsökunar á gjörðum Ríkis íslams er farið að bera meira á hatursorðræðu í garð múslíma víða um heim í kjölfar árásanna. 

Félag múslima á Íslandi og Menningarsetur Múslima sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfar árásanna og fordæmdu „þessa hrika­legu, til­efn­is­lausu og blóðugu árás á sak­laust fólk í Par­ís föstu­dags­kvöldið 13. nóv­em­ber. Við send­um aðstand­end­um fórn­ar­lambanna samúðarkveðjur og ósk­um þeim særðu fljóts bata. Þessi blóðuga árás gerði eng­an mun á milli trú­ar­bragða, litar­hátt­ar eða þjóðern­is fórn­ar­lambanna.“

En hvernig upplifa ungir íslenskir múslimar sig í samfélagi okkar eftir atburðarrásina í París og hvað hefur breyst? 

Vonar að þessi ólga líði hjá

Birta Árdal Bergsteinsdóttir, móðir og heimshornaflakkari gerðist múslími þegar hún var 22 ára gömul. „Þar sem tvíburadætur mínar voru aðeins fjögurra daga gamlar þegar árásirnar áttu sér stað þá hef ég ekki verið mikið úti á meðal fólks og hef því ekki reynslu af breyttum viðbrögðum samborgara," segir hún. „Mín aðalreynsla af samfélaginu á þessum tíma er í gegnum samfélagsmiðla og fréttavefi.  Ég fékk áfall þegar ég heyrði af árásinni og óskaði þess sem heitast að hryðjuerkamennirnir væru ekki svokallaðir múlsimar, vegna afleiðingana sem það myndi augljóslega hafa í för með sér. Allt fólk sem ég þekki og ræði þetta við virðist ekki vera þeirrar skoðunar að þessar gjörðir séu tengdar Íslam eða að þau hafi verri skoðun á múslimum yfir höfuð. En það er kannski vegna þess að það þekkir mig og mína fjölskyldu og Íslam er það sem þau sjá í okkur en ekki það sem þau sjá í fréttunum. Ég er viss um það að allir þeir sem eru á móti múslimum eftir þessar fréttir hafa ekki komist í góð kynni við hið sanna Íslam hjá fólki sem reynir að lifa lífi sínu í sátt og friði. Ég vona innilega, dætra minna vegna, að þessi ólga líði hjá og í framtíðinni verði pláss fyrir alla í fjölmenningarsamfélagi."

„Við heiðrum ekki minningu þeirra sem eru fórnarlömb haturs með …
„Við heiðrum ekki minningu þeirra sem eru fórnarlömb haturs með því að næra á auknu hatri,“ segir Yousef Ingi Tamimi. Ljósmynd/ úr einkasafni

Upplifir mikið vonleysi

„Umræðan eftir árásirnar á París vekja upp minningar um umræður eftir 11. september," segir Yousef Tamimi, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík. „Ég var barn þá, ekki nema 12 ára gamall, en var byrjaður að átta mig á umræðunni heima fyrir um stöðu útlendinga og múslima. Ég er alinn upp á frjálslyndu trúarlegu heimili þar sem við systkinin fengum að ákveða okkar leiðir í stað þess að ákveðnum hugmyndum væru þröngva inn á okkur og uppeldi foreldra minna mótaði mig á þann hátt að mér finnst ég knúinn að berjast fyrir réttindum minnihlutahópa.“ Yousef segist aldrei hingað til hafa upplifað sig utangátta innan samfélagsins en á undanförnum árum hafi hann upllifað aukna  „við  á móti þeim” umræðu þar sem hann væri í raun staddur í „þeim” flokknum. 

„Við höfum komist svo ótrúlega langt í baráttu fyrir réttindum minnihlutahópa en á sama tíma upplifi ég einnig mikið vonleysi,“ segir hann.  „Vonleysi um að baráttan okkar fyrir betri heim með mannréttindi að leiðarljósi sé alltaf að verða fjarlægari draumur. Uppgangur öfga hægri afla í Evrópu, þar sem útlendingahatur og múslimahatur virðist vera hornsteinn þeirrar baráttu, valda mér miklum áhyggjum. Morðóðir einstaklingar sem ráðast á saklausa borgar Parísar eru notaðir sem afsökun fyrir öfgahópa til að neita tugþúsundum manna um mannréttindi, afsökun fyrir þá til að ráðast á minnihlutahópa og afsökun til þess að koma í veg fyrir að við hjálpum þeim sem þurfa á hjálp að halda. Við heiðrum ekki minningu þeirra sem eru fórnarlömb haturs með því að næra á auknu hatri. Nær allir íbúar heimsins hafa það markmið að lifa lífi sínu í sátt og samlyndi við allt og alla en það eru til einstaklinga sem passa ekki inn í þessa hugmynd okkar og reyna að valda stríð á milli okkar. Við getum ekki leyft þessum öfga hópum að taka yfir umræðuna og leyfa þeim að stjórna í hvaða átt hún fer. Núna er enn mikilvægara að fólk taki sig til og standi vörð um mannréttindi og afneiti hatri sem auðvelt er að breiða út."

„Nánustu vinir mínir myndu aldrei setja samasemmerki milli mín og …
„Nánustu vinir mínir myndu aldrei setja samasemmerki milli mín og þess sem gerðist í París. Fyrir þeim er ég andlit Íslams.“ Mbl.is/ Golli


Bitnar mest á börnunum

„Eftir svona hrottaleg morð telja allt of margir múslimar sig knúna til að útskýra af hverju slík atvik tilheyra ekki þeirra trú. Þetta bitnar hins vegar mest á börnunum,"segir Gëzim Haziri, forritari.  „Systkini mín tala til dæmis aldrei um trúmál við börnin sín af ótta við að það gæti bitnað á þeim ef þau minnast á trú sína í skólanum. Ég upplifði þetta sjálfur sem barn eftir árásina á tvíburaturnana í New York árið 2001. Þá var ég í sjötta bekk og laug til um nafn föður míns þar sem hann hét Osman en mér fannst það of líkt Osama. Það er mjög erfitt fyrir mig að vita hvað fólk hugsar en tjáir það ekki við mig vegna þess að ég er múslimi.“

Gëzim telur áhyggjur við slíka fordóma ekki minnka þegar þeir sem halda í stjórnartaumana á Íslandi gefa fordómum byr undir báða vængi að hans mati með því að boða að gengið verði hægt að umburðalyndi og viðurkenningu fjölmenningarsamfélags.

„Nánustu vinir mínir myndu aldrei setja samasemmerki milli mín og þess sem gerðist í París. Fyrir þeim er ég andlit Íslams. En fyrir allt of marga aðra eru hryðjuverkamenn andlit Íslams. Kynni okkar allra við aðra menningarheima gera okkur að sterkari persóńuleikum með opinn huga. Slíkt er ekki hægt án fjölmenningarsamfélags og umburðarlyndis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert