Hafa misst trúna á öryggi

Sýrlendingar í flóttamannabúðum í Líbanon.
Sýrlendingar í flóttamannabúðum í Líbanon. AFP

Það er engin ein rétt leið til þess að taka á móti flóttamönnum, en það er mikilvægt að átta sig á því að móttaka þeirra er ferli til lífstíðar. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Nicole Dubus, um móttöku flóttafólks í sal Þjóðminjasafnsins í dag. Dubus er doktor í félagsráðgjöf og Fulbright sérfræðingur, en hún tók þátt í hádegisfundi á vegum Velferðarráðuneytisins, Fulbright stofnunarinnar, MARK og RBF.  

Dubus er menntaður félagsráðgjafi og hefur unnið með flóttamönnum frá öllum heimshornum í tugi ára og hefur gríðarlega reynslu og þekkingu á málefnum þeirra.

„Við í Bandaríkjunum höfum lært margt um hvað þýðir að taka á móti fólki sem er neytt frá heimili sínu,“ sagði Dubus og sagði mikilvægt að skilja muninn á flóttamanni og innflytjanda. Flóttamenn eiga sér ekkert val, innflytjendur ákveða að flytja til einhvers lands til að hefja betra líf, oft þekkja þeir tungumálið eða fólk í landinu.

„Flóttamenn áttu sér eitt sinn gott líf á einum stað og sáu fyrir sér að verða þar gömul, ala upp börnin sín og vinna. En öfl sem þau stjórna ekki hafa breytt því hversu öruggur sá staður er,“ sagði Dubus.

Mikilvægt að skilja reiði og pirring

Hún sagði það oft erfitt fyrir flóttamenn að sýna hversu mikið þeir meta hjálpina sem þeir fá. Fólkið hefur gengið í gengum gífurlegar hörmungar, margir verið pyntaðir eða horft á ástvini sína vera pyntaða. „Ekki aðeins eru þau að syrgja þá staðreynd að þau misstu land sitt og heimili, staðinn þar sem þau héldu að þau myndu alltaf búa, heldur misstu þau trúnna á öryggi,“ sagði Dubus. Benti hún jafnframt á að í nýja landinu er erfitt fyrir flóttamennina að fá menntun sína gilda og getur það haft áhrif á sjálfsálit og almennt öryggi fólksins. Einnig búa flóttamenn oft í löndum þar sem litið er á þá sem minna traustvekjandi en aðra, þá m.a. vegna húðlitar og trúar.

„Það er mikilvægt að sá sem tekur á móti flóttamönnum skilji að þeir verði stressaðir og pirraðir. Þeir geta ekki treyst öðrum. Þér líður kannski eins og þú sért að gera góðverk án þess að fá eitthvað til baka,“ sagði Dubus og bætti við að það væru yfirleitt sjálfboðaliðarnir og aðrir sem hjálpa flóttamönnum sem finna fyrst fyrir reiði fólksins. Sagði hún þá mikilvægt að fólk horfi framhjá viðbrögðunum þar sem að móttaka flóttamanna er ferli fyrir lífstíð.

Snýst ekki aðeins um fyrstu tvö árin

Að sögn Dubus hafa fá lönd verið í sömu stöðu og Ísland, í stað þess að þurfa að bregðast stöðugt við vandamálum, hafa Íslendingar tækifæri til þess að taka frumkvæði í því að koma í veg fyrir vandamál. Að mati Dubus geta Íslendingar skarað fram úr á þeim sviðum sem hafa verið öðrum þjóðum erfið.

Bætti hún við vegna stærðar Bandaríkjanna og flækjustigs gæti landið aldrei sýnt þetta sama frumkvæði og Íslendingar geti nú. „Þið hafið möguleikann á því að taka ykkur saman sem land og ákveða að hefjast handa,“ sagði Dubus.

Hún sagði það mikilvægt að horfa ekki á hvern og einn flóttamann eins og hann er í dag, heldur hvar hann verði eftir tuttugu ár. „Við erum miklu oftar að hugsa um persónuna núna og hvað hún þarf, en gleymum að hugsa út í hvað hún muni þurfa eftir 20 eða 40 ár,“ sagði Dubus. 

Að taka á móti flóttamönnum snýst ekki bara um fyrstu tvö árin eftir að þau koma, sagði Dubus, heldur áratugina eftir.

Oft auðveldara fyrir börn en fullorðna

Nefndi hún sem dæmi að oft væri það auðveldara fyrir börnin að aðlagast að nýjum menningarheimi en foreldranna. Þeir sitja þá stundum eftir í einangrun á meðan börnin læra tungumálið og nýja siði og gætu þau jafnvel hálfskammast sín fyrir gamla siði sem foreldrarnir reyna að halda í á heimilinu. En sum börn myndu alltaf standa út úr vegna þess að þau eru öðruvísi. „Þau þurfa að kljást við byrðina sem fylgir því að vera menningar- og tungumálabrú fyrir foreldra sína,“ sagði Dubus og er það langtímavandamál.

Foreldrarnir eiga það til að einangrast á meðan börnin eru á milli tveggja menningaheima og finnst þau jafnvel utangátta, bæði í “nýju” menningunni og þeirri gömlu. Að sögn Dubus eru það oft þessi börn og unglingar sem lenda í slæmum félagsskap, eins og gengjum, þar sem þau þrá ekkert heitar en að passa einhversstaðar inn í hópinn. En einnig geta þau ratað í öðruvísi félagsskap eins og t.d. trúhópa.

Eiga erfitt með að treysta

Dubus lagði áherslu á hversu erfitt það sé fyrir flóttamenn að koma til nýs lands. Þau hafa verið fórnarlömb stríða, áttaka og fátækrar í mörg ár og eiga gífurlega erfitt með að treysta öðru fólki. „Félagsráðgjafar halda að þeir séu að gera eitthvað frábært með að hjálpa þeim og halda að þetta sé auðvelt. En flóttafólkið er oft hrætt og tortryggið,“ sagði Dubus.

Sagði hún mikilvægt að dæma ekki fólk af kápunni. „Samkenndin þarf alltaf að vera til staðar.“

Dubus hlustar á spurningu úr sal.
Dubus hlustar á spurningu úr sal. mbl.is/Árni Sæberg
Von er á 55 flóttamönnum til Íslands í næsta mánuði. …
Von er á 55 flóttamönnum til Íslands í næsta mánuði. Þau búa nú í flóttamannabúðum í Líbanon. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert