Leiðarvísir fyrir karla um konur

Joanne Lipman, rithöfundur, blaðamaður og fyrrum aðstoðarritstjóri Wall Street Journal.
Joanne Lipman, rithöfundur, blaðamaður og fyrrum aðstoðarritstjóri Wall Street Journal. mbl.is/Styrmir Kári

Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Joanne Lipman leitar leiða til að minnka kynjahallann með því að fá karlmenn að borðinu þannig að þeir verði hluti af lausninni. Hún segir konur of oft ræða um konur við hver aðra um hluti sem þær vita allar.

Hún skrifaði vinsæla grein, Women at Work: A Guide for Men, leiðarvísi um konur í vinnu fyrir karlmenn, sem verður nú að bók. Jafnréttisríkið Ísland verður sérstaklega tekið fyrir í bókinni.

„Ég flutti nýlega fyrirlestur í risastórri lögfræðistofu og eftir á rétti maður upp hönd. Hann lýsti reynslu sinni af skýrsluvinnu í fyrirtækinu þar sem kona hafði borið hitann og þungann af vinnunni en karlmaður í hópnum hefði síðan kynnt skýrsluna og fengið allan heiðurinn. Hann sagðist ekki hafa áttað sig á þessu fyrr, en allar konurnar kinkuðu kolli á meðan. En fyrir honum var eins og kveikt hefði verið á ljósaperu,“ segir Lipman.

„Ástæða þess að ég vildi skrifa þetta fyrir karlmenn er að karlar stjórna heiminum og stjórna fyrirtækjum og konur eru alltaf að passa hvað þær segja og hvernig þær klæða sig því þær eru alltaf að laga sig að heimi karlmanna. Punkturinn hjá mér er að karlmenn þurfa að aðlagast okkur rétt eins og við þeim. Þetta er tvístefna. Það er svo miklu meira sem þeir geta gert og ég reyni að koma þeim að borðinu svo þeir skilji það og verði meðvitaðir. Og þegar þeir verða meðvitaðir geta þeir haft svo mikil áhrif,“ segir hún og tekur dæmi frá stóru bandarísku fyrirtæki sem heitir Kimberly-Clark.

Fyrirtækið selur ýmsar hreinlætisvörur og m.a. Kotex-túrtappa. „Framkvæmdastjórinn sagði mér frá því þegar hann var á fundi fyrir um fimm árum þar sem stjórnendur túrtappahluta fyrirtækisins voru að gefa skýrslu og ræða um stefnu fyrir stjórnina. Einn stjórnarmanna tók hann þá til hliðar og spurði hvort þeir væru örugglega ekki með eina konu sem gæti heldur rætt um þetta. Hann skoðaði yfirstjórnina hjá sér og sá að það voru um 80% stjórnenda karlar en 99% viðskiptavinanna voru konur. Hann ákvað að gera eitthvað í málunum og hóf að tala um þetta á öllum fundum hversu mikilvægt það væri að konur fengju framgang innan fyrirtækisins og það skilaði sér í fleiri konum í stjórnendastöðum og betri fjárhag,“ segir Lipman.

Lipman er í ítarlegu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert