Reykjavík selur mikinn fjölda eigna

Korpúlfsstaðir eru meðal þeirra eigna sem Reykjavík ætlar að selja.
Korpúlfsstaðir eru meðal þeirra eigna sem Reykjavík ætlar að selja.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í gær á fundi sínum tillögu skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar um að setja tæplega 40 eignir í sölumeðferð. Er heildarverð eignanna á markaði talið vera um 7,5 milljarðar og að söluhagnaður þeirra gæti numið um 4 milljörðum. Gert er ráð fyrir að eignirnar seljist á næstu þremur til fimm árum. Gert er ráð fyrir að söluhagnaður borgarinnar á næsta ári verði um 500 milljónir. Rúv greindi fyrst frá í dag.

Alliance húsið og höfuðstöðvar Strætó

Meðal eigna sem borgin ætlar að selja eru Alliance húsið á Grandagarði 2, höfuðstöðvar Strætó bs við Hestháls, Korpúlfsstaði, Vonarstræti 4 og hjúkrunarheimilið Seljahlíð. Auk þess eru mörg af bílastæðahúsum borgarinnar á listanum.

Verðmætasta eignin á minnisblaðinu er skrifstofuhúsnæði Strætó, en bókfært virði þess er 1,6 milljarðar. Næst þar á eftir kemur Seljahlíð, en bókfært virði hjúkrunarheimilisins er 531 milljón.

Korpúlfsstaðir og Kirkjuhvoll

Alliance húsið á Grandagarði er bókfært á 446 milljónir, Korpúlfsstaðir á 275 milljónir og Vonarstræti 4 á 250 milljónir. Húsið við Vonarstræti er einnig þekkt sem Kirkjuhvoll, en þar er meðal annars Bílastæðasjóður, Arkitektafélag Íslands og Hönnunarmiðstöð Íslands með aðsetur.

Á listanum er einnig Safamýrarskóli, Skálholtsstígur 1, spildur úr Tindstöðum II og Skrauthólum, auk nokkurra eigna við Árbæjarsafn. Eru bókfært virði þessara eigna 0 krónur hjá Reykjavíkurborg.

Bókfært virði bílastæðahúsanna er samtals tæplega 640 milljónir, en þar af er Stjörnuport bókfært á 428 milljónir. Önnur bílastæðahús eru bókfærð á mun lægri tölur og er bílastæðahúsið í gamla Kolaportinu aðeins metið á 4 milljónir.

Sjá má heildarlista eignanna og bókfært virði þeirra hjá Reykjavík í meðfylgjandi skjali. Rétt er að hafa í huga að bókfært virði endurspeglar ekki alltaf markaðsvirði eignanna.

Sala bílastæðahúsa borgarinnar hefur lengi verið til umræðu innan borgarkerfisins. …
Sala bílastæðahúsa borgarinnar hefur lengi verið til umræðu innan borgarkerfisins. Borgarráð samþykkti í gær að setja mörg þeirra í sölumeðferð. mbl.is/Heiðar Kristjánsson
Kirkjuhvoll
Kirkjuhvoll Mynd/ja.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert