Ekkert inflúensusmit síðan í september

Inflúensan hefur enn sem komið er ekki breiðst út hér á landi en gera má ráð fyrir að tilfellum fari fjölgandi um eða upp úr áramótum. Í lok september greindist einn einstaklingur með inflúensu A(H1)pdm09, sem er sami stofni og olli heimsfaraldrinum 2009. Hann er nú annar tveggja stofna sem veldur árlegri inflúensu.

Enginn hefur greinst með staðfesta inflúensu síðan þá og lítið er um klínískar inflúensugreiningar skv. sjálfvirkum tilkynningum heilsugæslunnar úr Sögu sjúkraskrá, segir á vef landlæknis.

Þetta er í samræmi við virkni inflúensu í Evrópu, en hún er enn í lágmarki víðast hvar og einungis stöku tilfelli hafa greinst.

Í þessari viku greindist RSV-sýking (Respiratory Syncytial Virus) hjá einu barni á fyrsta aldursári á höfuðborgarsvæðinu. Sýkingin getur valdið alvarlegum öndunarfæraeinkennum hjá ungum börnum. Ekkert bóluefni er til gegn þessari veirusýkingu.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hefur nóróveira verið algengasta greiningin í saursýnum á síðastliðnum vikum en niðurgangstilfelli eru færri í ár en undanfarin ár.

Þess skal getið að tölur um fjölda greininga á veirufræðideild Landspítala gefa takmarkaðar upplýsingar um sjúkdómsbyrði af völdum þessara veira í samfélaginu því að veikindin ganga oftast yfir án þess að sýnataka fari fram. Tölurnar eru þó að líkindum ágæt vísbending um hvaða veirur eru í dreifingu í samfélaginu á hverjum tíma, segir á vef landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert