Kristnir og múslimar í Neskirkju

Frá hátíðinni í fyrra.
Frá hátíðinni í fyrra. Ljósmynd/Neskirkja

Ást og virðing mun leysa hatrið af hólmi þegar kristnir og múslimar koma saman í Neskirkju á morgun til að halda þar saman Ashura-hátíð að tyrkneskum sið. Verður þar boðið upp á sérstakan Ashura-búðing og er hann táknmynd fyrir verðmæti fjölmenningarsamfélagsins.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Neskirkju.

Meðal þeirra sem sækja munu viðburðinn heim verður biskup Íslands og mun hann einnig bera fram friðarorð, en þetta er annað árið í röð sem þessi hátíð er haldin í Neskirkju.

Æskulýðsfélag Neskirkju, NeDó, hóf á síðasta ári samstarf við félagið Horizon, menningarsamtök múslima af tyrkneskum uppruna hér á landi, og var Ashura-hátíðin þá haldin í fyrsta skipti í Neskirkju. Séra Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Neskirkju, hefur skipulagt samstarfið fyrir hönd Neskirkju ásamt séra Toshiki Toma presti innflytjenda.

„Markmiðið er einfaldlega að taka höndum saman við múslima í samfélagi okkar við að gleðjast yfir því sem gerir okkur ólík og biðja um þann frið sem trú okkar beggja boðar,” segir Sigurvin Lárus í tilkynningu og heldur áfram: „Verkefni sem þetta er brýnna nú en fyrr í ljósi nýliðinna atburða í París, þeirra voðaverka sem framin hafa verið í nafni alræðisstefnu Íslamista og því tilgangslausa ofbeldi sem þar birtist. Tilgangslausu ef við leyfum ekki þeim sem þar voru að verki að ná ætlunarverki sínu.“

Aðgangur er ókeypis og eru allir hvattir til að mæta, en safnaðarheimili Neskirkju opnar klukkan 15 á morgun og er gert ráð fyrir að hátíðin standi til klukkan 17.30.

Allar nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast á vefnum Neskirkja.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert