Útlit fyrir ófærð á morgun

Það bendir allt til þess að það verði leiðindafærð og jafnvel ófært víða fyrir norðan á morgun en það er spáð samfelldri snjókomu með allhvassri norðanátt og skafrenningi. Mjög kalt er víða á landinu og í Reykjavík er um 8 stiga frost og 10 stiga frost á Akureyri.

Í fyrramálið er útlit fyrir að úrkomubakki komi inn á norðanvert landið með vaxandi vindi og má búast við samfelldri snjókomu í kringum Tröllaskaga allan daginn með allhvassri norðanátt og skafrenningi. Færð og skyggni geta auðveldlega spillst í þessum aðstæðum, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar er einnig svartsýnn á veður og færð á morgun í sinni spá: 

„Litlar breytingar í kvöld og nótt, en í fyrramálið dregur til tíðinda í veðri norðanlands. Snemma í fyrramálið vex vindur og með ofanhríð, einkum í Skagafirði, Eyjafirði og þaðan norður í Kelduhverfi. 8-13 m/s og skafrenningur, en 15-18 á utanverðum Tröllaskaga nærri hádegi. Við Húnaflóa, á Ströndum og á Vestfjörðum verða él og víða mun lausamjöllina renna yfir vegi á þeim slóðum einnig.“

Það er hálka á Reykjanesbraut, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er svo á vegum á Suður- og Suðvesturlandi.

Hálka er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en annars er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á vegum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Ófært er úr Bjarnarfirði í Árneshrepp og ófært er einnig um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Þungfært er í Kollafirði á Ströndum en þæfingur í Bitrufirði.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða hálkublettir víðast hvar og einnig snjókoma á Þverárfjalli og í Fljótum.  Norðaustanlands er snjóþekja eða hálka og éljagangur mjög víða. Skafrenningur er á Hófaskarði, Brekknaheiði og Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja eða hálkublettir og skafrenningur á Vatnsskarði eystra.   Einhver éljagangur er með suðausturströndinni.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðlæg átt 5-13 m/s og víða él, en hægari og úrkomulítið um sunnanvert landið. Frost 2 til 12 stig. Hvessir norðanlands í nótt með snjókomu undir morgun, norðan og norðvestan 10-18 um og eftir hádegi, hvassast við norðurströndina og úrkomumest við Tröllaskaga. Lengst af hægari og þurrt fyrir sunnan. Dregur úr frosti á morgun.

Á mánudag:
Norðlæg átt 5-10 m/s og él fyrir norðan og austan. Annars hæg vestlæg eða breytileg átt og að mestu þurrt, en él suðvestanlands undir kvöld. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðan til.

Á þriðjudag:
Gengur í austanstorm með snjókomu eða slyddu, en úrkomulítið norðanlands. Dregur úr frosti og hlánar við suðurströndina.

Á miðvikudag:
Snýst í suðvestan 5-13 m/s með éljum sunnan- og vestanlands, annars bjart með köflum. Vestan 10-15 og snjókoma á norðausturhorninu fram eftir degi. Frost 2 til 10 stig.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt og snjókoma eða él, en þurrt að kalla fyrir norðan. Frost um allt land.

Á föstudag:
Útlit fyrir vaxandi suðlæga átt með úrkomu um allt land og hlýnar í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert