Eyddu engum jólakúlum í Hríseyinga

Skjáskot af vef svarfdaelasysl.com
Skjáskot af vef svarfdaelasysl.com

Sérlegt dekurtré Dalvíkinga í Heiðmörk var skreytt samkvæmt áratugsgamalli hefð í dag. Sökum afbrýðisemi Dalvíkinga var þeirri hefð þó sleppt þetta árið að skreyta nærliggjandi tré tileinkuð nærliggjandi bæjum við Eyjafjörð.

Gönguklúbburinn Sporið (einnig titlaður líknarfélag og saumaklúbbur) stendur fyrir fyrrgreindri hefð þar sem greni- og jólatré eitt í Heiðmörk er skreytt, sem eitt sinn þótti lítið og ræfilslegt áður en það komst í umsjá hinna brott fluttu Dalvíkinga. Með harðfylgi og skepnuúrgangi hefur klúbbnum tekist að rækta tréð í meiri hæð en nokkur Dalvíkingur hefur náð svo þekkt sé.

Afbrýðisemikast Dalvíkinganna í ár kemur til, að sögn vefsins Svarfdaelasysl.com, af því að Akureyri lagði sveit Dalvíkinga í Útsvari nýlega og er það sár Dalvíkingum enn í fersku minni. Þá er þess skemmst að minnast að Hríseyingar töldu í atkvæðagreiðslu þann kostinn vænni að sameinast Akureyri en Dalvík.

Í næstu viku er talið að nærsveitungum Dalvíkinga verði fyrirgefið á ný, en þó ekki í tæka tíð til þess að vera tileinkað hinni árvissu jólaskreytingu í Heiðmörk.

Nánar segir frá trénu og deilunum við Eyjafjörð á vefsíðu Svarfdaelasysl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert