Ferðalög milli landshluta varasöm

Með morgninum er úrkomubakki með vaxandi vindi að koma inn á norðanvert landið og má búast við samfelldri snjókomu, allhvassri norðanátt og skafrenningi víða á Norðurlandi í dag, allt frá Ísafjarðardjúpi austur að Möðrudalsöræfum. Það stefnir því í lélega færð og skyggni á þessum slóðum og geta ferðalög á milli landshluta verið varasöm, segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Útlitið fyrir daginn er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir fyrir þá sem þurfa að komast á milli landshluta norðantil á landinu, enda verður norðanáttin bæði hvöss og úrkomusöm. Um landið sunnanvert verður hins vegar ágætis veður, en fremur kalt og síðdegis gætu stöku él náð að dragast suður yfir heiðar. Á morgun mánudag dregur síðan úr vindi og úrkomu víðast hvar. Vert er að benda á að síðar í vikunni gera spár ráð fyrir leiðindaveðri og má búast við tveimur til þremur stormum fram á næstu helgi. Því er fólki bent á að fylgjast vel með veðurspám þessa vikuna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings í morgun.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er svo á vegum á Suður- og Suðvesturlandi.

Hálka er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en annars er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og skafrenningur á Þröskuldum, þæfingur er einnig á milli Ísafjarðar og Súðavíkur en snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði ásamt skafrenningi. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum en þó er ófært um Klettsháls og beðið er með mokstur. Ófært er úr Bjarnarfirði í Árneshrepp og ófært er einnig um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Byrjað að snjóa fyrir norðan

Á Norðurlandi er nú víða farið að snjóa töluvert og búist er við að færð gæti versnað með deginum.
Norðvestanlands er lokað um Siglufjarðarveg vegna snjóflóða. Þá er þæfingsfærð og skafrenningur á Þverárfjalli en hálka eða snjóþekja annars staðar. Norðaustanlands er þæfingsfærð á Tjörnesi, Hólasandi og á Brekknaheiði en ófært er um Hófaskarð. Flughált er um Dettifossveg.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja eða hálkublettir.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Vaxandi norðan- og norðvestanátt með snjókomu, 10-18 m/s um og eftir hádegi, hvassast við norðurströndina og úrkomumest á Tröllaskaga. Hægari og lengst af þurrt fyrir sunnan. Frost 1 til 11 stig, en dregur úr frosti er líður á daginn. Fer að draga úr vindi í nótt og úrkomu á morgun, norðlæg átt, 3-10 og él nyrðra og einnig sums staðar suðvestan til. Frost 0 til 8 stig.

Á mánudag:
Norðlæg átt 5-10 m/s og él fyrir norðan og austan. Annars hæg vestlæg eða breytileg átt og að mestu þurrt, en él SV-lands undir kvöld. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðan til.

Á þriðjudag:
Vaxandi austanátt, hvassviðri eða stormur undir kvöld, fyrst sunnantil. Snjókoma eða slydda, en úrkomulítið N-lands. Dregur úr frosti og hlánar við suðurströndina.

Á miðvikudag:
Hvöss norðaustanátt, en allhvöss eða hvöss suðvestanátt syðst. Víða snjókoma en sums staðar slydda sunnantil. Frost 0 til 5 stig, en um frostmark með ströndum, síst fyrir norðan.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt og él sunnan- og vestantil, en annars þurrt að kalla. Frost um allt land.

Á föstudag:
Vaxandi suðlæg átt með úrkomu um allt land, hvassviðri eða stormur seinnipartinn. Hlýnar talsvert í veðri og 2 til 8 stiga hiti víðast hvar um kvöldið.

Á laugardag:
Útlit fyrir ákveðna suðvestanátt með rigningu og síðar éljum, en styttir upp norðanlands seinnipartinn. Kólnar og víða vægt frost síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert