Lokanir norðantil vegna snjóflóða

Siglufjarðarvegur og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla eru lokaðir.
Siglufjarðarvegur og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla eru lokaðir.

Siglufjarðarvegi og veginum um Ólafsfjarðarmúla hefur verið lokað vegna snjóflóða og áframhaldandi hættu á snjóflóðum á svæðinu. Enn snjóar á Norðurlandi og horfur eru á versnandi færð með deginum.

Eftirfarandi frétt birtist á vef Vegagerðarinnar í dag kl. 14.19, en hált er um land allt eftir snjókomu síðustu daga.

Ábendingar frá veðurfræðingi

Snjókomubakkinn norðanlands er ansi dimmur og enn er að bæta í vind. Veðurhæð verður nærri 15 m/s um og upp úr miðjum degi, en undir kvöld fer heldur að draga úr á Holtavörðuheiði og í Húnavatnssýslum. Á Vestfjörðum verður éljagangur og skafrenningur á fjallvegum í allan dag. Norðaustan- og austanlands verður veður skaplegra, en þar má þó búast við éljum eða snjókomu síðar í dag og hvasst um tíma.

Lokað

Búið er að loka veginum um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu.

Færð og aðstæður

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut en hálka á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir og sumstaðar snjóþekja er á vegum á Suður- og Suðvesturlandi.

Snjóþekja og snjókoma er á Holtavörðuheiði og þungfært er um Bröttubrekku en mokstur stendur yfir. Annars er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum þar sem einnig er skafrenningur. Hálka eða snjóþekja er annars á flestum öðrum leiðum, þó er þæfingsfærð og skafrenningur á Klettshálsi. Ófært er úr Bjarnarfirði í Árneshrepp og ófært er einnig um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi er nú víða farið að snjóa töluvert og búist er við að færð geti versnað þegar líða tekur á daginn. Lokað er vegna snjóflóða um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla.
Á Norðvesturlandi er snjóþekja og snjókoma  eða skafrenningur víðast hvar. Norðaustanlands er snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum, þæfingsfærð er á Hólasandi og Hófaskarði. Flughált er á Dettifossvegi.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja eða hálkublettir.

Umferðartafir í Strákagöngum

Vegna vinnu við endurbætur á rafkerfi í Strákagöngum má búast við umferðartöfum
þar á virkum dögum frá klukkan 8.00-18.00 í nóvember og til 22. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert