Moli Skólakisi missti augað

Matartími hjá Mola litla sem nærist í gegnum nefið þar …
Matartími hjá Mola litla sem nærist í gegnum nefið þar til gómurinn grær. mbl.is/Styrmir Kári

Nafnið Moli Skólakisi hringir kannski ekki mörgum bjöllum meðal hins almenna Íslendings en í Hafnarfirði er hann svo þekktur og dáður að eftir að hann varð fyrir bíl í síðustu viku styrkti Kiwanis klúbburinn Eldborg hann með auglýsingu á besta stað, utan við fjörðinn í Hafnarfirði.

Hvatti klúbburinn almenning til þess að leggja hönd á plóg við að greiða fyrir sjúkrakostnað Mola. Hann kjálkabrotnaði og missti auga vegna bílslysins en vinir Hafnfirðingar komu honum til bjargar og undir læknishendur og er hann nú á bataferli undir eftirliti Sifjar Sverrisdóttur.

„Hann fékk mjög mikið höfuðhögg en rataði til konu sem hann hafði verið svolítið hjá fyrir ári síðan. Í ljós kom að efri gómurinn var brotinn og beinflís hafði stungist í augað. Það þurfti því að taka annað augað en hann er ofboðslega sterkur og gengur vel að ná sér.“

Sif gefur Mola næringu í gegnum slöngu upp í nefið á tveggja tíma fresti en hann lætur það lítið á sig fá að geta ekki tuggið og er búin að finna malið sitt aftur eins og heyra má í þessu myndbandi.

Moli vaknar hress á fimmtudagsmorgni.. :)

Posted by Óskasjóður Púkarófu on Thursday, November 26, 2015

Heimsækir börn og aldraða

Sif segir Mola fæddan í miðbæ Hafnarfjarðar árið 2008 hjá góðri kisafjölskyldu en að hann hafi sjálfur kosið að gerast flækingsköttur og búa við bæjarlækinn sem Lækjarskóli er kenndur við. Hún segir skólakisann búinn miklum persónutöfrum og vera vinalegan með eindæmum enda gæði hann sér jafnan á brauði við lækinn fremur en að hrella andarungana.

„Hann á sín daglegu störf og hefur hrifið íbúa bæjarins með sér. Hann fer í Lækjarskóla og heilsar upp á krakkana og kennararnir hafa hleypt  honum inn í lestrarkennslu. Þess vegna er hann þekktur sem Moli Skólakisi. Síðan fer hann á elliheimilið og heilsugæsluna og á í raun mjög mörg heimili. Það þekkja allir Mola.“

Dýralæknamiðstöð Hafnarfjarðar og Ninó Aladdín, heilsuhús hunda og katta, opnuðu síðan fyrir ári í Lækjargötunni. Moli var fyrsti gesturinn og hefur heilsuhúsið verið eitt helsta heimili hans síðan.

Sif segir Mola eiga ýmsar stórstjörnur að vinum, t.a.m. sé Björgvin Halldórsson duglegur að heilsa upp á hann en Moli hefur raunar sjálfur gert garðinn frægan sem persóna í barnabókinni Flöskuskeyti. Af honum fara ýmsar sögur og þykir nokkuð ljóst að hann á mun fleiri en hin hefðbundnu níu líf.

Sif með myndir sem börn í Lækjarskóla teiknuðu handa Mola …
Sif með myndir sem börn í Lækjarskóla teiknuðu handa Mola skólakisa. mbl.is/Styrmir Kári

Ótrúleg áhrif kisa

Sif segir að enn sé nokkur tími í að Moli geti flutt aftur út að læknum en að skólayfirvöld hafi boðið honum að koma í heimsókn í Lækjarskóla á næstunni að hitta börnin sem hafa eðlilega áhyggjur af vini sínum.

„Við höfum verið að heyra frá foreldrum barna í skólanum, það eru allir miður sín vegna slyssins. Krakkarnir hafa teiknað myndir fyrir hann og sent batakveðjur. Það er ótrúlegt hvað einn lítill köttur getur haft mikil áhrif á aðra.“

Þeir sem vilja fylgjast með Mola má benda á Facebook síðu Óskasjóðs Púkarófu þar sem reglulega koma inn myndir og myndbönd af skólakisanum. Söfnunin fyrir bataferli Mola er enn opin með reikningsnúmerið 544-14-700311  og kennitöluna 680880-0269. 

Moli er kannski sjúskaðri en áður en hann er engu …
Moli er kannski sjúskaðri en áður en hann er engu minni ljúflingur að sögn Sifjar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert