Mygla herjar á Ölduselsskóla

Miklar viðgerðir eru framundan á húsnæði Ölduselsskóla.
Miklar viðgerðir eru framundan á húsnæði Ölduselsskóla. mbl.is/Þorvaldur Örn

Til stendur að loka hluta af húsnæði Ölduselsskóla í Reykjavík vegna rakaskemmda og myglu í kennslurými. Vegna þessa þarf að færa kennslu 130 nemenda annað á meðan viðgerðir standa yfir.

Er sagt frá þessu í frétt á vef Ríkisútvarpsins. En þar kemur einnig fram að nýverið hafi komið í ljós rakaskemmdir í þakklæðningu skólans og að kennari hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna óþæginda sem af þessu stöfuðu. Hefur kennarinn nú hætt störfum við skólann vegna þessa.

Rakaskemmdir þessar eru sagðar vera á nokkrum stöðum í húsnæðinu en hafist verður handa við viðgerðir í desember. Er talið að þær verði miklar að umfangi.

„Hér þurfum við að fara í aðgerðir til að losna við rakaskemmdir sem hér eru í loftunum og geta í einhverjum tilfellum valdið óþægindum hjá fólki og skaðað heilsu þess. Við ætlum að fara núna að gera endurbætur á því,“ segir Börkur Vígþórsson, skólastjóri Ölduselsskóla, í frétt Ríkisútvarpsins en talið er að viðgerðirnar taki mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert