„Við höfum oft séð þetta verra“

mbl.is/Sigurður Ægisson

Allt er nú á kafi í snjó á Siglufirði og Ólafsfirði eftir mikla snjókomu norðantil á landinu. Búist er við norðan- og norðvestanátt, 10 til 18 m/s, með snjókomu eða éljum og skafrenningi síðar í dag, en hvassast verður við norðurströndina og úrkomumest í kringum Tröllaskaga. 

Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði, segir bæ sinn nú á kafi í snjó. „Það er er mjög snjóþungt hér og þeir einu sem eru á ferli í bænum eru mennirnir á snjómoksturstækjunum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is og bendir á að til hafi staðið að halda aðventuhátíð í kvöld, en vegna veðurs hefur hún nú verið blásin af. 

Að sama skapi átti að tendra ljós á jólatrénu við ráðhústorg Siglufjarðar en vegna mikillar ofankomu og óhagstæðrar veðurspár hefur því einnig verið frestað. Sambærilegum viðburðum hefur jafnframt verið frestað á Ólafsfirði.

Hafa mokað í allan dag

Birgir Ingimarsson er bæjarverkstjóri í Fjallabyggð og hefur hann því meðal annars umsjón með snjómokstri á Siglufirði og Ólafsfirði. Að sögn hans eru fjögur öflug snjómoksturstæki að störfum og byrjuðu þau snemma í morgun.

„Það er vissulega dálítill snjór en flestar götur eru nú engu að síður færar. Við erum búnir að vera í mokstri frá því snemma í morgun,“ segir Birgir og heldur áfram: „Það er nú eiginlega alveg þokkalegt ástand hjá okkur, norðvestanátt og hríð. Við höfum oft séð þetta verra.“

Búið er að loka Siglufjarðarvegi og veginum um Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu.

Meðfylgjandi má sjá myndir sem séra Sigurður Ægisson tók á Siglufirði um klukkan hálfþrjú í dag.

mbl.is/Sigurður Ægisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert