Önnur ríki gangi fram eins og Ísland

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mbl.is/Styrmir Kári

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Íslendingar eigi ekki að taka umræðu um loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi „á þeirri forsendu að við séum í stórskuld við umheiminn. Það finnst mér einfaldlega ekki rétt.“ Ísland eigi fremur að krefjast að aðrir gangi fram með svipuðum hætti og Íslendingar hafi gert.

„Mér hefur almennt þótt skorta töluvert mikið upp á það að við Íslendingar staðsettum okkur rétt í umræðu um umhverfismál. Við tökum oft þessa umræðu eins og við séum jafnvel nálægt rót vandans í loftlagsmálum þegar staðreyndin er sú að það sem er að gerast í öðrum heimshlutum er meginvandamálið. Það sem er að gerast í Kína á hverju einasta ári. Nú eru Kínverjar til dæmis að stórauka álframleiðslu sína, meira eða minna allt saman með því að reisa ný og kraftmeiri kolaraforkuver,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Loftlagsráðstefna SÞ hófst í París í dag.
Loftlagsráðstefna SÞ hófst í París í dag. AFP

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna út í markmið Íslands í loftlagsmálum í ljósi þess að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst í París í dag.

Árni benti á, að í nýlegri sóknarstefnu ríkisstjórnarinnar hefði það vakið athygli hversu lítið væri um mælanleg markmið og hversu lítið af fé væri lagt til úrbóta í loftslagsmálum. „Ísland hefur að sönnu lýst því yfir að það vilji ganga í takt með Evrópusambandsríkjum og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030. Það vantar eitthvað meira handfast til að sjá með hvaða hætti það eigi að vera mögulegt. Þetta mun kosta peninga en það er ekki að sjá í sóknarstefnunni að fjallað sé um það,“ sagði Árni.

Bjarni sagði mikilvægt að taka heildarsamhengi hlutanna með í umræðuna um loftslagsmál. „Síðan þegar kemur að því að taka umræðuna hér heima fyrir um það hvernig við viljum gera enn betur þá getum við sett okkur markmið um að ná enn frekara forskoti, en við eigum ekki að taka umræðu um loftslagsmál í alþjóðlegu samhengi á þeirri forsendu að við séum í stórskuld við umheiminn. Það finnst mér einfaldlega ekki rétt. Við þurfum að halda miklu hærra á lofti kröfunni um að aðrir gangi fram með svipuðum hætti og við Íslendingar höfum gert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert