Flugfreyja meiddist í mikilli ókyrrð

Flugvél Flugfélags Íslands. Myndin er úr safni og tengist efni …
Flugvél Flugfélags Íslands. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Þórður Arnar Þórðarson

Síðustu vél Flugfélags Íslands til Akureyrar var snúið við skömmu eftir flugtak frá Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi eftir að hún lenti í óvæntri og óvenjumikilli ókyrrð.  Flugfreyja slasaðist lítillega á hné þegar hún rakst upp undir og lenti illa, að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra flugfélagsins.

Fjörutíu farþegar auk þriggja manna áhafnar voru um borð í vélinni sem hóf sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 19:32 í gærkvöldi. Vélinni var hins vegar snúið við og lent aftur í Reykjavík um klukkan 20:15 eftir að hún lenti í mikilli ókyrrð.

„Þetta var óvenjumikil ókyrrð og kom nokkuð óvænt. Það var í gangi þjónusta um borð þegar þetta kemur upp á. Þetta var ekki eitthvað sem við áttum von á að sjá þarna þrátt fyrir að hafa eins góðar upplýsingar um veður og hægt var á þeim tíma,“ segir Árni.

Við ókyrrðina kom hreyfing á vélina sem varð til þess að flugfreyjan sem bar fram drykki til farþeganna rakst upp undir loft farþegarýmisins og lenti svo illa. Marðist hún á hné að sögn Árna en þó ekki svo illa að hún sé óvinnufær eftir.

Engum öðrum varð meint af en farþegunum var boðin áfallahjálp eftir uppákomuna. Árni segir að hún standi þeim enn til boða sem vilji frekari upplýsingar eða vinna í gegnum reynsluna. Þá var þeim boðið far með vél félagsins í morgun í staðinn og segir framkvæmdastjórinn að eftir því sem hann viti best hafi þeir allir þegið það boð.

„Fólki finnst þetta náttúrulega almennt séð óþægilegt. Sumir eru auðvitað viðkvæmari en aðrir og sumir jafnvel flughræddir. Þá er eðlilegt að við reynum að bjóða aðstoð við það og við gerum það,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert