Í viðbragðsstöðu frá kl 6:30

Björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu verða í viðbragðsstöðu frá klukkan 6:30 í fyrramálið vegna óveðurs sem spáð er á landinu á morgun. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, hefur félagið í dag verið að senda upplýsingar um veðrið og viðbrögð við því á ferðaþjónustuaðila.

Einnig er búið að hafa samband við alla aðgerðarstjóra björgunarsveitanna hringinn í kringum landið og eins og fyrr segir verða björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu komnar í viðbragðsstöðu klukkan hálf sjö í fyrramálið.

Spáð er stormi og hríðarbyl á öllu landinu á morgun, fyrst suðvestanlands. Að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, fer að hvessa snemma í fyrramálið, væntanlega með skafrenningi. „Það hvessir og byrjar að snjóa snemma í fyrramálið. Það er viðbúið að færð verði mjög erfið vegna skafrennings og snjókomu. Þetta veður færist síðan norður og austur yfir landið,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is. Óveðrið byrjar á Suðurlandi og nær síðan yfir á Vesturland.

Að sögn Haraldar nær stormurinn hámarki á hádegi á höfuðborgarsvæðinu, en dettur niður um þrjú leytið, snjókoman heldur hinsvegar eitthvað áfram.

Hann segir miðvikudag og fimmtudag líta þokkalega út á suður- og vesturlandi en á föstudaginn er útlit fyrir aðra lægð. „En við sjáum bara þegar nær dregur hvað verður úr henni.“

Svona lítur þetta úr klukkan 12 á morgun.
Svona lítur þetta úr klukkan 12 á morgun. Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert