Jólaseríur gegn mislingum

Ljósmynd/UNICEF

Húsasmiðjan hefur ákveðið að styrkja Unicef, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fyrir hátíðirnar en fyrir hverja selda ljósaseríu í Húsasmiðjunni og Blómavali fram til jóla gefur verslunin skammt af bóluefni ætlaðan börnum gegn mislingum eða mænusótt. Unicef eru stærstu barnahjálparsamtök í heimi og verða skammtarnir sendir þangað sem þörfin er mest hverju sinni. Miðað við fjölda seldra jólasería undanfarin ár þá mun verkefnið fjármagna nokkur þúsund bóluefnisskammta fyrir börn í fátækustu ríkjum heims, segir í fréttatilkynningu frá Húsasmiðjunni.

Vel hefur tekist til við að fækka tilfellum mænusóttar og er markmiðið að útrýma sjúkdómnum alfarið. Mænusótt var fyrir nokkrum árum landlæg í 100 löndum en talan hefur nú minnkað í þrjú lönd. Bóluefni gegn mislingum eða mænusótt er sent úr birgðastöð Unicef í Kaupmannahöfn og fer í flestum tilfellum til fátækustu ríkja heims, t.d. Búrúndí, Kongó, Madagaskar og Súdan, en einnig þangað sem hafa orðið náttúruhamfarir og heilbrigðiskerfið laskast verulega. Bóluefnið getur bjargað börnum frá því að veikjast alvarlega eða jafnvel deyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert