Stál í stál í kjaradeilu álversstarfsmanna

Verkfall hefst á miðvikudag í Straumsvík ef ekki semst.
Verkfall hefst á miðvikudag í Straumsvík ef ekki semst. Ljósmynd/Alcan

„Við gætum verið búin að ganga frá samning fyrir langa löngu. Viðræðurnar lykta af því að þeir ætla ekki að semja við okkur,“ segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna í álveri Rio Tinto í Straumsvík. Verkfall starfsmanna hefst á miðvikudag ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. 320 starfsmenn eru á bak við kjarasamninginn.

Að sögn Gylfa greinir deiluaðila aðeins á um eitt atriði, en veigamikið; hvort Rio Tinto fái að nýta sér nýjar heimildir til verktöku. Varðar ákvæðið störf 32 starfsmanna að sögn forsvarsmanna Rio Tinto en Gylfi segir störfin vera nær 100 að mati samninganefndar verkalýðsfélaga vegna kjarasamnings við ISAL.

Gylfi segir þó, að séu störfin um 30 líkt og Rio Tinto haldi fram, þá sæti það furðu að fyrirtækið standi og falli með því að því verði gert kleift að ráða verktaka í stað starfsmanna. „Af hverju gerðu þeir þá ekki slíkar kröfur til stjórnenda?“ spyr hann en búið er að ganga frá samningum við stjórnendur og millistjórnendur Rio Tinto að sögn Gylfa.

Aðspurður hvort starfsmenn ætli að halda kröfum sínum til streitu þó að það kunni að kosta störf allra starfsmanna svarar Gylfi því til að starfsmenn ætli ekki að láta undan kröfum fyrirtækisins. „Þá er fyrirtækið búið að taka ákvörðun og notar kjaradeiluna til að loka fyrirtækinu. Það getur ekki verið að kjaradeilan valdi þessari stöðu í málinu, það er alveg útilokað,“ segir Gylfi.

Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto, segir samninganefnd starfsmanna ekki vilja ræða kröfu fyrirtækisins um verktakaákvæðið og stranda viðræðurnar þar. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið og sagði fyrirtækið ekki semja í fjölmiðlum.

Aðrar fyrirætlanir með orku?

Gylfi segir að fjöldi fólks hafi sett sig í samband við hann upp á síðkastið vegna orðróms um að Rio Tinto hafi aðrar fyrirætlanir með raforku en að nýta hana til álframleiðslu.

„Þeir lokuðu álveri í Englandi og fengu hærra verð fyrir að selja raforkuna annað. Það er verið að líta til þess að umræðan um raforkustrenginn sé komin lengra og að Rio Tinto horfi til þess að nota raforkuna í eitthvað annað en í álverið. Þeir fái meira fyrir orkuna þegar sæstrengurinn verður kominn, á einhverjum tímapunkti,“ segir Gylfi inntur nánar eftir útskýringum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert