„Takmarkið er innan seilingar“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í pontu á ráðstefnunni í París.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í pontu á ráðstefnunni í París.

Íslendingar hafa náð miklum árangri í minnkun kolefnislosunar en þurfa að gera meira. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í dag.

Sigmundur Davíð hóf ræðu sína á því að votta þeim sem urðu fyrir hryðjuverkaárásunum í París  13. nóvember síðastliðinn samúð sína. Lýsti hann yfir samstöðu með íbúum Parísar og Frakklands.

„Jöklarnir okkar eru að hörfa

Í ræðu sinni sagðist Sigmundur vonast til þess að á næstu dögum náist samkomulag sem muni „koma í veg fyrir hörmulegar loftlagsbreytingar.“ Sagði hann jafnframt að samkomulagið gæfi von um að mannkynið gæti sameinast um að berjast gegn þeirri miklu ógn sem loftlagsbreytingar hafa í för með sér.

„Loftlagsbreytingar eru nú þegar sjáanlegar á Íslandi. Jöklarnir okkar eru að hörfa. Við höfum ákveðið að auka eftirlit með jöklunum okkar og gera niðurstöðuna, og jöklana sjálfa, aðgengilegri til gesta og almennings,“ sagði Sigmundur og bætti við að Ísland geti virkað sem kennsluvettvangur um áhrif loftlagsbreytinga. „Ef ekkert er gert til að minnka losun, gætu jöklarnir á Íslandi horfið að mestu leyti næstu hundrað árin.“

Í ræðu sinni sagði Sigmundur frá því hvernig Íslendingar hafi minnkað kolefnislosun í orkuframleiðslu og hvernig næstum því 100% orku hérlendis komi frá rafmagni og að endurnýjanleg orka sé notuð til hitunar.

Aukin skógrækt og uppgræðsla

Sigmundur greindi frá því hvernig ríkisstjórn hans hafi tilkynnt um verkefni þar sem markmiðið er að hraða minnkun kolefnislosunar af samgöngum, fiskiðnaði og landbúnaði, í samstarfi við fyrirtæki á þeim sviðum. 

Einnig stendur til að auka við skógrækt og uppgræðslu að sögn forsætisráðherra til þess að fá meiri kolefni úr andrúmsloftinu.

Sagði Sigmundur Íslendinga mikla stuðningsmenn notkun jarðhita og að hann gæti veitt milljónum manna orku í flestum hlutum heimsins.

Samkomulagið söguleg stund

Sagði Sigmundur jafnframt að samkomulag til að tak­marka hlýn­un jarðar yrði söguleg stund. Að minnka losun kolefnis í hagkerfunum yrði mikið og flókið verkefni en nauðsynlegt er að nálgast það með jákvæðu hugarfari.

„Takmarkið er innan seilingar,“ sagði Sigmundur Davíð að lokum og bætti við að Íslendingar styðji sam­komu­lag til að tak­marka hlýn­un jarðar við 2 gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert