Fyrirgefa Akureyringum eftir helgi

Dekurtréð ber nafn með rentu.
Dekurtréð ber nafn með rentu. Ljósmynd/ svarfdaelasysl.com

Dekurtré Dalvíkinga er komið í jólagallann eftir hátíðlega athöfn í gær.

Á vefsíðunni Svarfdælasýsl er greint frá því að brottfluttir Dalvíkingar og viðhengi þeirra í gönguhópnum Sporinu, líknarfélagi og saumaklúbbi, hafi tekið tréð í fósturi fyrir nokkrum árum og séð um að koma því á legg.

„Tréð var lítið og ræfilslegt þegar Dalvíkingar tóku það í verndarfaðm sitt. Þá var það lægra en Haukur Sigvaldason, forseti Sporsins, sem er maður ekki hávaxinn. Eftir hrossaskítsveitingar og fleiri næringartrix lifnaði yfir trénu og nú hefur það vaxið öllum Dalvíkingum yfir höfuð, hvar í heimi sem búa,“ segir á Svarfdælasýsl.

Talið er að þetta sé í tíunda skipti sem Dalvíkurtréð er skreytt í upphafi aðventu og segir á síðunni að sérlega áhrifaríkt sé að rölta fram hjá því í upphafi aðventu til loka jóla.

„Handan þrettándans er tréð er afklætt hátíðarskrúðanum og verður venjulegt greni á ný, að svo miklu leyti sem dekurtré getið talist venjulegt,“ segir á síðunni. Kemur þar jafnframt fram að Sporið hafi sleppt því að spanera kúlum í hríslur sem tileinkaðar voru Akureyringum og Hríseyingum í fyrra þar sem of skammt var liðið frá því að Akureyri sigraði Dalvíkurbyggð í Útsvari auk þess sem á slíkum stundum taki sig dálítil sárindi yfir því að Hríseyingar vildu frekar sameinast Akureyri en Dalvík.

„Of seint er að iðrast eftir dauðann en sú niðurstaða í atkvæðagreiðslu kostaði Hrísey til dæmis jólaskreytingu í Heiðmörk í dag. Gáum að því. Eftir helgina verður Akureyringum og Hríseyingum fyrirgefið og lífið gengur sinn vanagang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert