Harma rýran hlut kvenna

KÍTÓN gagnrýnir rýrar hlut kvenna í tónlistariðnaðinum.
KÍTÓN gagnrýnir rýrar hlut kvenna í tónlistariðnaðinum. mbl.is/Styrmir Kári

KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, segir mikilvægt að hefja umræðu um rýran hlut tónlistarkvenna hvað varðar áheyrn og aðgang að fjölmiðlum, útgáfu, félögum og nefndum, sem félagið segir kristallast í vali Samtóns á þeim verkum sem heiðruð verða á degi íslenskrar tónlistar.

Um er að ræða þrjú lög, sem öll eru eftir karlmenn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KÍTÓN:

„Dagur íslenskrar tónlistar er á morgun og í ljósi umræðunnar um sniðgöngu tónlistarkvenna við val á verkum til flutnings vill KÍTÓN senda frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á tónlistariðnaðinn allan að viðurkenna þann kynjahalla sem þar viðgengst, sem sjá má til dæmist í skiptingu höfundarréttartekna þar sem hlutur kvenna er eingöngu 9%, fáum tilnefningum kvenna til íslensku tónlistarverðlaunanna undanfarin ár og skorti á konum í nánast öllum þeim ráðum og nefndum sem snúa að tónlist á Íslandi. Mikilvægt er að hefja umræðu um rýran hlut tónlistarkvenna þegar kemur að þvi að hljóta áheyrn og aðgang að fjölmiðlum, útgáfu, félögum og nefndum sem sjá má kristallast í vali Samtóns á þeim verkum sem heiðra skal á degi íslenskrar tónlistar. Að þessu sinni eru höfundar laga og texta 6 karlar og engin kona. Hlutföllin eru því 100% á móti 0% og var það sama uppi á teningnum í fyrra. Þetta val er alls ekki í takt við þá jafnréttisumræðu sem er í gangi á Íslandi í dag og langt í frá boðlegt. Við viljum því skora á þau félög sem eiga aðild að Samtóni, STEF, SFH, FTT, FÍH, TÍ og FHF að senda frá sér yfirlýsingu þar sem þessi vandi er skoðaður og viðurkenndur auk þess sem settar eru fram tillögur að aðgerðum til að leiðrétta þann mikla kynjahalla sem er við lýði í tónlistariðnaðinum öllum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert